Eins og greint var frá í nótt virðist virknin í syðri gossprungunni, þeirri sem opnaðist rétt fyrir ofan byggð, vera orðin engin. Talið er að þrjú hús hafi farið undir hraun en það mun koma betur í ljós í birtingu hver staðan er.
Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, sagði í fréttum RÚV klukkan sjö í morgun að nóttin hefði verið tíðindalítil. „Það má segja að góðu fréttirnar eru þær að það virðist vera minna rennsli á þessu hrauni.“
Vísindamenn munu koma saman klukkan 10 og þá verður staðan tekin, til dæmis hvað hægt sé að gera í verðmætabjörgun og þá verður mat lagt á framgang gossins.
Ríkisstjórnin mun koma saman til fundar í dag þar sem fjallað verður um húsnæðisstuðning við Grindvíkinga. Verður meiri kraftur settur í að tryggja íbúum öruggt húsnæði til lengri tíma. Í frétt RÚV í morgun kom fram að samverustundir verði haldnar í Keflavíkurkirkju og Hafnarfjarðarkirkju klukkan fimm í dag.