Logi ræddi leikinn í viðtali við RÚV eftir leik en hann er sjálfur staddur í Þýskalandi þar sem hann er meðal sérfræðinga RÚV um mótið.
Logi sagði að íslenska liðið hefur alveg haft möguleika á að stela sigrinum og liðið hefði getað nýtt sér markvörslu Viktors Gísla Hallgrímssonar betur. „Strákarnir sýndu hjarta að ná þessu,“ sagði Logi sem kveðst ekki oft hafa séð álíka lokakafla og í leiknum í kvöld.
Sjá einnig: Þetta sögðu sófasérfræðingar þjóðarinnar um Strákana okkar – „Sigvaldi ég elska þig!“
„Þetta opnar riðilinn og heldur þessu opnu. Þetta var spennutryllir og ég er eiginlega ekki í standi til að tala um leikinn, ég trúði þessu ekki,“ sagði Logi sem sat fyrir aftan varamannabekk Serba í leiknum.
Benti hann á í viðtalinu að Serbarnir hafi verið byrjaðir að fagna og faðmast þegar Sigvaldi Björn Guðjónsson slapp einn í gegn og skoraði jöfnunarmark Íslands. „Það skildi enginn neitt í neinu.“
Logi sagði að það væri hægt að taka helling af jákvæðum hlutum úr leik íslenska liðsins. Aron Pálmarsson og Viggó Kristjánsson hefðu átt góða innkomu í seinni hálfleik og skotið á markið fyrir utan.
„Sóknarleikurinn hefur brugðist okkur og hann gerði það á köflum. Þetta er vítamínsprauta, maður er bjartsýnn og þetta var mikilvægasta stigið. Nú er þetta í okkar höndum áfram,“ sagði Logi en næsti leikur Íslands er gegn Svartfjallalandi á sunnudag og hefst klukkan 17.