Sorpa hætti í gær dreifingu pappírspoka undir matarleifar í matvöruverslunum. Nú er aðeins hægt að nálgast pokana í sex endurvinnslustöðvum Sorpu eða í búð Góða hirðisins.
Þegar það spurðist út í haust að til stæði að rukka fyrir pokana brugðu margir á það ráð að hamstra pokana.
Umfjöllun RÚV í gær hefur vakið mikla athygli en þar kom fram að á sumum heimilum væru margra ára birgðir af ókeypis bréfpokum.
„Við höfum séð myndir af pokastæðum heima hjá fólki sem við ályktum að séu svona 7.000 pokar. Það mun duga í hálfa öld,“ sagði samskiptastjóri Sorpu við RÚV.
Málið hefur vakið mikla reiði í samfélaginu og létu margir í ljós skoðun sína í athugasemdakerfi á Facebook-síðu RÚV við færslu fréttarinnar.
„Fólk er klikkað. Ég er enn á fyrsta búntinu sem var sent heim,“ segir einn netverji.
Ein stingur upp á því að fólkið sem hamstraði pokana skili þeim. „Er ekki bara sniðugt að þetta blessaða fólk sem hamstraði geti bara skilað pokunum aftur á ákveðinn stað,“ segir hún.
„Þeir gráðugu eyðileggja allt fyrir öðrum,“ segir annar netverji.
„Enn eitt klúður borgarinnar varðandi sorphirðu. Og algjörlega fyrirsjáanlegt að þetta heimskulega fyrirkomulag myndi fara svona. Af hverju er ekki bara hægt að sjá hvernig þetta er gert erlendis þar sem vel hefur gengið? Þetta fíaskó með endurvinnslu og sorphirðu er algjörlega ótrúlegt í samanburði við það sem maður hefur séð í nágrannalöndum,“ segir einn.
Ein bendir á hvernig þetta er í Noregi: „Í Noregi fær maður poka á hálfs árs fresti…þeir sem tæma ruslið skilja þá eftir fyrir utan hjá manni. Enginn getur hamstrað.“
Önnur útskýrir hvernig þessu er háttað í Hollandi: „Í Hollandi er það græn tunna, engar umbúðir, allt fer beint í tunnuna. Sumir kaupa þvottaþjónustu á tunnunni, aðrir þrífa hana öðru hvoru sjálfir. Þetta er búið að ganga vel í 30 eða 40 ár.“
„Svo er það spurningin, hvað er líftími pappírsins sem er þarna í stæðunni á myndinni langur?“ spyr einn.
„Sorphirðubíllinn á bara að úthluta þessu um leið og lífrænt er tæmt, málið dautt,“ segir ein og taka margir undir með því að líka við athugasemdina.
Sjá einnig: Líf allt annað en sátt: „Að hamstra þessa poka er óafsakanlegt“