Sverrir Þór Gunnarsson, öðru nafni Sveddi tönn, hefur verið dæmdur í sex ára og níu mánaða fangelsi í Brasilíu fyrir fíkniefnabrot. Dómurinn féll í Ríó de Janeiro þann 23. nóvember síðastliðinn en Sveddi var dæmdur fyrir að hafa í vörslu sinni 150 grömm af maríjúana og 3,6 grömm af kókaíni ætluð til sölu og dreifingar.
Vísir.is greinir frá þessu.
Efnin fundust við húsleit sem gerð var í tengslum við hinar svokölluðu Match Point aðgerðir brasilísku alríkislögreglunnar þann 14. apríl 2023. Sveddi er grunaður um að vera höfuðpaur í fíkniefnahring í Brasilíu.
Sveddi er fæddur árið 1972 og hófst brotaferill hans strax við sextán ára aldur. Hafði lögreglan þá ítrekað afskipti af honum vegna umferðar- og fíkniefnabrota. Með tíð og tíma urðu brot hans skipulagðari og stórtækari og á árunum 1991-1995 var hann fjórum sinnum sakfelldur fyrir þjófnað, fjársvik og fíkniefnabrot. Viðurnefnið Sveddi tönn fékk hann vegna tannlýtis.
Hann vakti svo gífurlega athygli um aldamótin þegar hann var einn höfuðpauranna í Stóra fíkniefnamálinu. Þar var Sverrir dæmdur í sjö og hálfs árs fangelsi og voru um 20 milljónir í hans eigu gerðar upptækar. Var honum gert að sök að hafa tekið á móti 105 kílóum af kannabis yfir nokkurra mánaða tímabil. Teygði málið sig út fyrir landsteinana til Danmerkur, Hollands og Bandaríkjanna og varðaði innflutning á miklu magni af kannabis, amfetamíni, kókaíni og e-pillum.
Í kjölfar málsins var í fyrsta sinn dæmt fyrir peningaþvætti á Íslandi en Sveddi hafði skipulagt þvættið í gegnum kjötvinnslufyrirtækið Rimax. Fjallað var um Svedda í þáttunum Sönn íslensk sakamál þar sem fram kom að hann lifði hátt, átti miklar eignir, góða bíla og gekk í dýrum fatnaði.