Það er Aage Strom Borchgrevink sem spáði þessu en hann hefur starfað árum saman sem ráðgjafi hjá Helsinkinefndinni og hefur skrifað margar bækur um Rússland og rússnesk málefni. Sú nýjasta heitir „Stríðsherrann í Kreml“ en í henni kafar hann djúpt í líf og hugsanagang Pútíns að sögn TV2.
Í samtali við TV2 sagði Aage að hann sjái þess nú skýr merki að Pútín sé að missa tökin á valdataumunum. „Keisari, sem er öruggur um stöðu sína, myndi ekki þurfa að gera eitthvað svona rosalegt,“ sagði hann og átti þá við flugslysið sem varð Prigozhin og nánustu samstarfsmönnum hans að bana.
Flestir sérfræðingar eru sannfærðir um að Pútín hafi staðið á bak við þetta og hafi látið granda flugvélinni. Þessu hafna talsmenn Kreml að sjálfsögðu og hafa meðal annars látið hafa eftir sér að Pútín sé löghlýðinn maður!
Aage sagðist telja að morðtilræðið sýni að Pútín sé undir miklum þrýstingi og hafi þörf fyrir að sýna fram á að það sé hann sem sé við völd.
„Já, mér finnst þetta vera þannig. Nú er eiginlega ekkert skálkaskjól lengur. Maður sér þetta byggt upp eins og mafíu, með Pútín á toppnum sem dómari og hinar ýmsu fylkingar sem takast á innbyrðis. Þessi átök urðu greinilegri í uppreisninni í júní,“ sagði Aage.
Hann sagði ekki vitað hvort það hafi verið Wagner-liðar eða fagnandi Rússar sem hafi skotið Pútín mestan skelk í bringu þegar uppreisnin stóð yfir en sagði að þetta hafi markað umskipti í uppreisninni gegn Pútín. Prigozhin hafi verið fyrsti uppreisnarmaðurinn sem reis upp opinberlega og með því hafi hann gjörbreytt leiknum. Þetta hafi verið í fyrsta sinn síðan 1941, þegar Þjóðverjar stóðu við borgardyrnar, sem eitthvað þessu líkt hafi gerst.
Rússar hafi séð að staða Pútíns hafi veikst og það hafi hugsanlega vakið upp hugsanir hjá öðrum um að þeir gætu gert eitthvað svipað.
Nú sjáist brestirnir í tökum Pútíns á valdataumunum greinilega. Bæði með uppreisninni og með „flugslysinu“. Það sé augljóst að hér hafi guðfaðirinn verið að hefna sín. Þetta líti út eins og opinber aftaka.
Aðspurður um hvort þetta sé skref í átt að falli Pútíns sagðist Aage telja svo vera. „Já, þetta eru slæmar fréttir fyrir stjórn Pútíns, ég get ekki túlkað þetta öðruvísi. En þetta er flókin barátta á mörgum sviðum. Sú mikilvægasta fer fram á vígvellinum í Úkraínu. Ef þetta endar með ósigri þar þá geta vandamálin orðið svo stór að þetta endi með falli stjórnar Pútíns,“ sagði Aage.