fbpx
Föstudagur 09.maí 2025
Fréttir

Gert að taka meint tannlæknamistök upp að nýju – Skakkt bit, brotnar tennur, skakkir hálsliðir og slitið bak

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 20. september 2023 14:00

Alma Möller, landlæknir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Embætti landlæknis þarf að taka aftur upp mál konu vegna meintra mistaka tveggja tannlækna, samkvæmt úrskurði heilbrigðisráðuneytisins frá 13. september. Áður hafði embættið gefið álit sitt í málinu árið 2021 en þarf nú að taka málið fyrir að nýju sökum vanhæfis sérfræðings sem fenginn var til að gefa umsögn. 

Málið varðar konu sem telur að mistök tveggja tannlækna hafi valdið henni gífurlegum heilsubresti á líkama og sál. Annars vegar hafi tannlæknir sett of háar fyllingar í tennur hennar sem hafi valdið verulegum óþægindum. Hún hafi svo leitað til annars tannlæknis sem hafi gefið henni góm sem olli því að tjónið varð enn meira, bit hafði færst aftar, orðið skakkt, tennur hafi brotnað, hálsliðir skekkst og slit myndast í baki hennar. Meðferðin hafi haft gífurlegar afleiðingar í för með sér fyrir líf hennar, andlega sem og líkamlega. Hún leitaði því til landlæknis þar sem hún taldi ljóst að tannlæknamistök hefðu valdið henni tjóni.

Fékk hún lögmanni að gæta hagsmuna sinna í kvörtunarferlinu, en bréf var sent landlækni í janúar árið 2018 og átti rannsókn landlæknis eftir að taka töluverðan tíma. Landlæknir gaf út álit sitt í ágúst 2021 og komst að þeirri niðurstöðu að mistök hefðu ekki átt sér stað. Byggði álitið á sjúkraskrá konunnar, greinargerðum og athugasemdum frá tannlæknunum sem vændir voru um mistök, greinargerð og athugasemdum konunnar og svo hafði embættið aflað umsagnar óháðs sérfræðings, tannlæknis og sérfræðings í munn- og tanngervalækningum.

Konan taldi ljóst að álit landlæknis byggði ekki á réttum gögnum. Sagði hún lögmann sinn hafa staðið sig illa, hann hafi ekki haldið henni upplýstri í gegnum ferlið og farið ranglega með staðreyndir máls. Konan hafi því ekki fengið nægilega gott færi til að bregðast við vörnum tannlæknanna og málið því ekki nægilega upplýst þegar landlæknir birti álit sitt. Heilbrigðisráðuneytið sagði það rangt að álit landlæknis hafi byggt á ófullnægjandi gögnum eða röngum upplýsingum, þó svo konan teldi lögmann sinn ekki hafa staðið sig. Hins vegar varð ráðuneytið að taka undir með konunni að embætti landlæknis hefði orðið á í messunni hvað varðaði umsögn frá óháðum sérfræðingi.

Umræddur sérfræðingur hafði nefnilega verið tannlæknir konunnar frá árinu 2017. Þó svo sérfræðingurinn hafi bent á að meðferðarsamband hans við konunnar kæmi ekki við sögu í þessu máli, og hann gæti því talist hlutlaus, benti ráðuneytið á að við mat á hæfi yrði að horfa til stjórnsýslulaga. Samkvæmt þeim lögum gæti sérfræðingurinn ekki talist óháður og því hafi verið rangt að byggja á umsögn hans.

Því væri tilefni til að afturkalla fyrra álit landlæknis og taka málið aftur fyrir.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ertu á atvinnuleysisbótum og þarft að eiga við Vinnumálastofnun? – Ekki gera sömu mistök og þessir gerðu

Ertu á atvinnuleysisbótum og þarft að eiga við Vinnumálastofnun? – Ekki gera sömu mistök og þessir gerðu
Fréttir
Í gær

Þungur andi hjá Félagsbústöðum: Sigrún sat heima á meðan starfsmenn skemmtu sér í Króatíu – „Það var bara af ákveðnum ástæðum“

Þungur andi hjá Félagsbústöðum: Sigrún sat heima á meðan starfsmenn skemmtu sér í Króatíu – „Það var bara af ákveðnum ástæðum“