fbpx
Föstudagur 09.maí 2025
Fréttir

Kanna möguleikann á samstarfi Íslenskrar erfðagreiningar og lögreglunnar

Ritstjórn DV
Mánudaginn 18. september 2023 09:00

Íslensk erfðagreining Mynd/Vilhelm

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýlega gagnrýndi Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, að kennslanefnd ríkislögreglustjóra hefði ekki leitað til fyrirtækisins eftir aðstoð við að bera kennsl á lífsýni og líkamsparta sem finnast hér á landi. Sagði Kári að hægt væri að nýta aðstöðu fyrirtækisins hér á landi í stað þess að senda sýni til Svíþjóðar.

Morgunblaðið fjallar um þetta mál í dag og hefur eftir Sigríði Björg Guðjónsdóttur, ríkislögreglustjóra, að embætti ríkislögreglustjóra hafi fundað með Kára á síðasta ári til að kanna möguleikann á samstarfi á milli kennslanefndar og Íslenskrar erfðagreiningar.

„Við erum að skoða þetta. Við erum ekki búin að gleyma samtalinu en viljum vera með mjög fast land undir fótum, lögfræðilega séð, áður en við nýtum upplýsingarnar. Þetta er auðvitað mögnuð aðstaða að hafa þennan gagnagrunn en hann var settur saman af öðrum ástæðum og við þurfum bara að sjá hvernig þetta fer saman,“ sagði Sigríður.

Hún sagði að Kári hefði boðið samstarf á fundinum og sé það mjög vel boðið en huga þurfi að persónuverndarsjónarmiðum og öðrum reglum áður en hægt er að taka ákvörðun um hvort samstarf sé mögulegt.

„Þetta hefur verið rætt en það hafa ekki komið upp nein tilvik sem myndu falla undir þetta samstarf frá því samtali. Við myndum líklega vilja láta reyna á það fyrir dómstólum fyrst, hvort við mættum nýta þessi gögn í þessum tilgangi. Við þurfum að fara vel yfir þetta út frá lögfræðilegum sjónarmiðum. Við erum að fara yfir það núna hjá okkur,“ sagði hún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt