Erin Petterson, móðir sem er grunuð um að hafa komið tengdaforeldrum sínum fyrir kattarnef með máltíð sem innihélt banvæna sveppi, segist sjálf hafa gætt sér á matnum, Wellington-steik, og orðið fárveik í kjölfarið. Í yfirlýsingu segist hún vera saklaus af því að hafa banað tengdaforeldrum sínum og annarri konu sem einnig var gestur í matarboðinu.
Málið hefur vakið gríðarlega athygli í Ástralíu eins og DV greindi frá fyrir helgi.
Málið kom upp þann 29. júlí síðastliðinn en þá var greint frá því að jónin Don og Gail Patterson væru látin ásamt systur Gail, Heather Wilkinson. Hjónunum hafði verið boðið í hádegismat ásamt Heather og eiginmanni hennar Ian, til tengdadóttur sinnar Erin.
Erin var gift syni hjónanna, Simon Patterson, og átti með honum tvö börn en þau voru þó nýlega skilin að borði og sæng. Sambandið milli allra hlutaðeigandi var þó gott sem sést best á því að Don og Gail þáðu matarboðið með þökkum. Tilgangur boðsins var meðal annars að ræða samband Erin og Simon og hvernig hægt væri að búa svo um hnútanna að skilnaðurinn yrði sem sársaukaminnstur. Simon fékk einnig boð í hádegisverðinn en hann afþakkaði boðið.
Eins og áður segir var dýrindis Wellington-steik í boði sem síðar kom í ljós að reyndist innihalda sveppi af tegundinni amanita phalloides en þeir vaxa villtir nærri heimili Erin og eru baneitraðir, jafnvel þó aðeins örlítið magn sé innbyrt. Ástæðan er að eitrið í þeim eyðileggur lifur viðkomandi.
Eftir máltíðina á heimili Erin veiktust allir matargestirnir hastarlega og á vikutímabili létust Don, Gail og Heather. Ian lifði þó eitrunina af en hann liggur enn þungt haldinn á sjúkrahúsi og bíður lifrarígræðslu.
Erin hefur nú tjáð sig um málið í langri yfirlýsingu og lýsir því sem gengið hefur á sem martröð. Segir hún í yfirlýsingu að hún hafi keypt tvær gerðir af sveppum fyrir matarboðið, eina úr nærliggjandi stórmmarkaði og aðra tegund í verslun með asískar vörur.
Hún hafi sjálf borðað Wellington-steikina með gestum sínum og veikst eins og þau. Hún hafi hins vegar leitað sér strax hjálpar og meðal annars fengið lif sem verja átti lifur hennar fyrir eitrun.
Þá hefur það vakið talsverða athygli að börn Erinar voru einnig viðstödd matarboðið. Í yfirlýsingunni kemur hins vegar fram að þau hafi fengið annað að borða en Wellington-steikina en daginn eftir hafi þau fengið afganga af steikinni en þá hafi Erin fjarlægt sveppina því að börnin væru ekki hrifin af þeim.
Segir Erin enn fremur í yfirlýsingunni að hún hafi ekki haft neina ástæðu til þess að drepa þessa ástvini sína sem hún hafi elskað heitt. Um hörmulegt slys hafi verið að ræða.
Þá er málið enn furðulegra í ljósi þess að eiginmaður Erin, Simon, veiktist hastarlega á síðasta ári í kjölfar matareitrunar.
Hann skýrði frá þessu á Facebook á þeim tíma og skrifaði að hann hefði verið nálægt því að deyja: „Ég hrundi niður heima og var haldið sofandi í 16 daga. Á þeim tíma voru gerðar þrjár neyðaraðgerðir á smáþörmunum og ein áður ákveðin aðgerð. Fjölskyldan var tvisvar kölluð á sjúkrahúsið til að kveðja mig því ekki var talið að ég myndi lifa af,“ skrifaði Simon.
Ekki hefur komið fram hver orsök magaverkjanna var og Simon hefur ekki tjáð sig við fjölmiðla enn sem komið er.
Það er því ljóst að öll kurl eru ekki komin til grafar í málinu. Lögregla rannsakar meðal annars þurrkofn sem Erin losaði sig við eftir matarboðið. Telur lögregla líkur á að ofninn hafi verið notaður til að þurrka hina eitruðu sveppi sem urðu þremenningunum að bana.
Í yfirlýsingunni viðurkennir Erin að hún hafi logið að lögreglu hvenær hún hafi losað sig við þurrkofninn en ástæða þess er sú að hún hafi farið á taugum í kjölfar athugasemdar eiginmanns síns.
Þurrkofninn hafi komið til umræðu á sjúkrabeði foreldranna og hann hafi þá spurt hvort að Erin hafi notað hann til þess að eitra fyrir foreldrum sínum.
Í kjölfarið hafi hún fyllst skelfingu og farið heim og hent ofninum. Þegar lögreglan hafi svo spurt hana út í ofninn hafi hún í stresskasti logið um að hún hafi losað sig við hann fyrir löngu síðan.