Barents Observer segir að sex manns hafi fundist myrt í rússneska bænum Derevyanoe aðfaranótt miðvikudags í síðustu viku. Allt hafði fólkið verið stungið til bana.
Fyrst voru eldri maður og sonur hans myrtir og eldur borinn að húsi þeirra. Að því loknu var röðin komin að öðru húsi þar sem tveir fatlaðir bræður voru myrtir sem og systir þeirra og gestur. Því næst var kveikt í húsinu.
Lögreglan handtók fljótlega tvo menn sem eru grunaðir um ódæðisverkin. Annar þeirra er Igor Sofonov, 37 ára, sem barðist með Wagnerhópnum í Úkraínu. Hann neitar sök.
Áður en Sofonov var ráðinn til starfa hjá Wagnerhópnum hafði hann náð að afreka hina hryllilegustu hluti sem enduðu á sakaskrá hans. Hann hafði meðal annars hlotið dóma fyrir þjófnaði, rán og morðtilraun.
Hann barðist með Wagner í Luhansk í Úkraínu á síðasta ári.