Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, gagnrýnir fréttastofu RÚV fyrir að birta aðeins lítinn hluta af viðtali við sig varðandi þá ákvörðun að heimila lögreglu að bera rafbyssur. Jón segir fréttastofuna hafa falast eftir viðtali við sig vegna málsins en ákveðið síðan að nota aðeins 10 sekúndna bút þar sem hann rökstuddi málið. Á meðan hafi pólitískir andstæðingar hans frá Samfylkingunni, Viðreisn og Flokki fólksins fengið mun meiri tíma í umfjölluninni.
Þann 23. janúar síðastliðinn gekk í gegn breyting dómsmálaráðherra á reglugerð sem veitti lögreglumönnum heimild til þess að bera rafbyssur. Málið olli nokkru fjaðrafoki enda beiting slíkra tækja umdeild og bentu þingmenn minnihlutans á þá staðreynd að fjölmörg tilvik hafa komið upp í Bandaríkjunum þar sem einstaklingar láta lífið eftir að hafa verið skotnir með rafbyssum.
Í vikunni komst síðan málið aftur í hámæli þegar bréf Umboðsmanns Alþingis til forsætisráðherra var birt niðurstaða þess var að Jón hefði gerst sekur um samráðsleysi við vinnslu málsins enda hafi hann ekki borið það undir aðra ráðherra í ríkisstjórn.
Fulltrúar minnihlutans, þar á meðal Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, og Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hafa sagt málið vera dæmi um slæma stjórnsýslu. Í kjölfarið var síðan Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, kallaður til fundar við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis vegna málsins.
Jón var síðan til viðtals hjá fréttastofu RÚV vegna málsins þar sem hann útskýrði mál sitt á tæpum þremur mínútum. Þar segist hann hafa verið í fullum rétti til að setja reglugerðina og að Umboðsmaður hafi verið sammála því að hann hafi ekki brotið nein lög í málinu. Fréttastofa RÚV notaði þó aðeins 10 sekúndur af viðtalinu, eins og áður segir, og við það var dómsmálaráðherra ekki sáttur.
Í færslu á Facebook-síðu sinni birtir hann viðtalið í heild sinni og gagnrýnir fréttastofuna:
Eftir mikla eftirgangsmuni af hálfu RÚV féllst ég á að að veita viðtal vegna bréfs Umboðsmanns Alþingis til forsætisráðherra í tengslum við reglusetningu um rafvarnarvopn. RÚV sá sér ekki fært að birta nema lítinn hluta viðtalsins þar sem ég fékk að rökstyðja mína hlið málsins, eða samtals 10 sekúndur. Birt viðtal við Þórunni Sveinbjörnsdóttur um sama málefni var 45 sekúndur, við Sigmar Guðmundsdóttur í 19 sekúndur og við Ásthildi Lóu í 14 sekúndur. Ekki bætti svo úr skák að rangar fullyrðingar voru í frétt RÚV um það sem fram kom í bréfi umboðsmanns.
Þetta segir mikið um fréttamat RÚV í þessu máli, en þetta er því miður of algengt stef hjá fréttastofu allra landsmanna. Því tel ég nauðsynlegt að birta hér allt viðtal RÚV við mig svo hlustendur geti glöggvað sig betur á málinu.