Þann 14. desember síðastliðinn var þingfest fyrir Héraðsdómi Suðurlands mál sem héraðssaksóknari hefur höfðað gegn Ingólfi Kjartanssyni vegna fimm meintra brota sem öll eru sögð framin inni á Litla-Hrauni þar sem Ingólfur afplánar núna langan dóm.
Hann er í fyrsta lagi sakaður um að hafa sumarið 2022 ráðist á mann fyrir utan fangelsið og kýlt hann í andlitið með þeim afleiðingum að maðurinn missti meðvitund stutta stund og fékk heilahristing, mar og bólgu við hægra kinnbein og skurði á vörum.
Ingólfur er einnig ákærður fyrir að hara ráðist á lögreglumann sem var við skyldustörf inni á Litla-Hrauni snemma í september 2022.
Hann er ennfremur sakaður um að hafa kýlt fangavörð í andlitið í byrjun nóvember árið 2022 en sá hlaut bólgu og eymsli í kjálka. Sama dag er hann sakaður um að hafa hrækt á fangavörð. Hann er ennfremur sakaður um að hafa þennan sama dag hótað fjórum fangavörðum á Litla-Hrauni og fjölskyldu þeirra lífláti og líkamsmeiðingum.
Umrædd ákæra tekur til brota sem framin voru árið 2022. Ingólfur er hins vegar grunaður um að hafa framið hnífstunguárás á Litla-Hrauni þann 23. nóvember síðastliðinn. Sá sem varð fyrir árásinni var þungt haldinn um tíma en var þó fljótt úr lífshættu. Þolandi árásarinnar er grunaður um skotárás sem framin var í fjölbýlishúsi við Silfratjörn í Úlfarsárdal nokkrum vikum fyrr. Talið er árás Ingólfs hafi verið hefnd fyrir þá skotárás sem beindist gegn vini Ingólfs, Gabriel Duane. Rétt er að taka fram að þetta er ósannað og Ingólfur hefur ekki verið ákærður fyrir árásina.
Ingólfur, sem er fæddur árið 2002, afplánar núna átta ára fangelsisdóm sem hann hlaut fyrir skotárás sem hann framdi í miðborg Reykjavíkur í febrúar árið 2022.
Ingólfur var í stuttu viðtali við DV í maí á þessu ári, eða nokkuð löngu eftir að hann á að hafa framið þau afbrot sem varða málið er þingfest var nýlega. Þar sagðist hann vera sestur í helgan stein hvað glæpi snertir en hefði snúið sér alfarið að gerð rapptónlistar. Hann tekur reglulega upp lög og birtir á Soundcloud-reikningi sínum og Facebook. Ingólfur birti þar síðast lag fyrir nokkrum dögum.