Tveir hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til fimmtudagsins 4. janúar vegna rannsóknar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á skotárás í heimahúsi í Hafnarfirði á aðfangadagskvöld. Þriðji maðurinn, sem var handtekinn vegna málsins, hefur verið látinn laus. Tilkynning lögreglu um málið er eftirfarandi:
„Tveir karlar voru í kvöld í Héraðsdómi Reykjaness úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald, eða til fimmtudagsins 4. janúar, á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á skotárás í Hafnarfirði á aðfangadagskvöld. Þeir voru báðir handteknir síðastliðna nótt, en þriðji maðurinn, sem var handtekinn í gær og greint var frá í fyrri tilkynningu lögreglu, er laus úr haldi, en ekki var krafist gæsluvarðhalds yfir honum.
Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.“