Kona sem ranglega var grunuð um akstur undir áhrifum amfetamíns stefndi ríkinu vegna lögregluaðgerða gegn sér og krafðist 1,3 milljóna króna í skaðabætur. Dómur var kveðinn upp í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 24. nóvember.
Málsatvik eru þau að konan var stöðvuð við akstur við umferðareftirlit lögreglu, eftir að lögreglu hafði borist tilkynning um aðfinnsluvert aksturslag konunnar. Atvikið átti sér stað síðla árs 2020. Konan var færð yfir í lögreglubíl og látin gefa þar munnvatnssýni. Sýnið gaf jákvæða svörun við amfetamíni. Konan var þá flutt á lögreglustöð þar sem blóðsýni var tekið úr henni. Niðurstaða rannsóknar á blóðsýninu leiddi í ljós að lyf og ólögleg ávana- og fíkniefni höfðu ekki verið í mælanlegu magni í blóði konunnar. Málið var því fellt niður.
Engu að síður birtust fréttir um atvikið í prentmiðli og tveimur vefmiðlum. Í fréttunum var fullyrt að konan hefði verið undir áhrifum fíkniefna við akstur.
Konan krafðist miskabóta vegna handtöku og blóðsýnatöku. Einnig sakaði hún lögreglu um að hafa miðlað upplýsingum til fjölmiðils um mál hennar en það hafi valdið henni miklum miska þó að hún hafi ekki verið nafngreind, enda búi hún í litlu samfélagi þar sem tíðindi sem þessi spyrjist fljótt út og ljóst sé hver hafi átt í hlut.
Í niðurstöðu dómsins var bent á að konan hefði sjálfviljug gefið munnvatnssýni. Hins vegar verði ekki hjá því litið að hún hafi verið handtekin. Hins vegar taldi dómarinn að konan hefði ekki fært sönnur á að lögregla hefði miðlað röngum upplýsingum um málið til fjölmiðla.
Niðurstaðan var sú að konunni voru dæmdar 75.000 krónur í miskabætur vegna ólöglegrar handtöku. Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði en konan naut gjafsóknar.
Dóminn má lesa hér.