Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Þar segir að mest sé um smáskjálfta undir 1 að stærð, en í morgun klukkan 6:35 hafi skjálfti af stærðinni 3,0 mælst við Hagafell.
„Samkvæmt GPS mælum heldur aflögun áfram en með minnkandi hraða. Nýjustu líkön sem reiknuð hafa verið út frá GPS mælingum og gervitunglagögnum benda ennþá til þess að mesta gliðnunin á kvikuganginum sé norður af Grindavík nálægt Hagafelli. Ef kvika nær að brjóta sér leið til yfirborðs, er því ennþá líklegast að það verði á því svæði,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.
Að sögn Veðurstofunnar er sigdalurinn yfir kvikuganginum ennþá virkur þó að mælingar sýni að það hafi hægst örlítið á siginu á milli daga.
„Nú sýna GPS mælar sem staðsettir [eru] í og við Grindavík nærri miðju sigdalsins sýna um það bil 3-4 cm sig á milli daga. Út frá samtúlkun á nýjustu gögnum og útreikningum með líkönum eru áfram eru taldar miklar líkur á eldgosi og mestar líkur eru á að það eigi upptök norðan Grindavíkur nálægt Hagafelli.“