Um tvö hundruð Venesúelabúar sem fóru frá Íslandi í gær með flugi til heimalandsins virðast hafa verið handteknir á Maiquetía-flugvellinum í Caracas, ef marka má staðarmiðilinn efectococuyo.com.
Flest fólkið hafði ekki fengið endanlega úrslausn sinna mála í kerfinu hér en þáði tilboð stjórnvalda um að yfirgefa landið gegn 400 þúsund króna greiðslu. Samkvæmt fréttinni var fólkið handtekið á flugvellinum og allir fjármunir teknir af því. Má því leiða líkur að því að stjórnvöld í Venesúea, þar sem einræðisherrann Nicolás Maduro fer með æðstu völd, hafi haldlagt gjafafé frá íslenskum stjórnvöldum upp á um 80 milljónir króna.
Vegabréf voru tekin af fólkinu og það neytt til að skrifa undir yfirlýsingu þar sem það játaði á sig föðurlandssvik.
DV bar fréttina undir Félag talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd og hefur félagið fengið fjölmargar ábendingar og gögn um þessa atburði. Félagið hyggst birta yfirlýsingu um málið síðar í dag þegar meiri gögnum hefur verið safnað og þau greind.
Fréttinni hefur verið breytt: Beðist er afsökunar á birtingu myndbands með fréttinni í gær en ósannað er að það sýni handtöku farþega frá Íslandi á flugvellinum.