Serhiy Marchenko, fjármálaráðherra, segir að eftir einn mánuð verði fjárhagsaðstoð ESB við Úkraínu uppurinn og þá blasi alvarlegur efnahagsvandi við landinu og muni hann hafa miklar afleiðingar fyrir alla Evrópu. Vesturlönd verði að bregðast hratt við og styðja fjárhagslega við Úkraínu.
Það þarf að fylla upp í fjárlagagat upp á 29 milljarða dollara í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Í samtali við Politico sagði hann að efnahagskreppa verði mjög alvarleg og ekki aðeins fyrir Úkraínu, heldur fyrir alla Evrópu. Hún geti leitt til hærra matvælaverðs sem og hærra orkuverðs og fjármálaóstöðugleika.
Hann sagði að rúmlega helmingur áætlaðra útgjalda ríkisins á næsta ári sé eyrnamerktur stríðsrekstrinum og því sé landið háð samstarfsaðilum sínum.
Í heildina hefur Úkraína þörf fyrir 43 milljarða dollara í efnahagsaðstoð á næsta ári. Nú þegar er landið búið að tryggja sér um 14 milljarða frá meðal annars Bretlandi, Japan og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. En það er vaxandi óvissa um stuðning frá ESB og Bandaríkjunum en þetta hafa veirð stærstu styrktaraðilar Úkraínu síðan stríðið hófst, bæði fjárhagslega og hernaðarlega.