fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Fréttir

Erfðaskrá varpar ljósi á hvers vegna tíræð kona dró til baka hundruð milljón króna gjöf – Sex ættingjar voru viðstaddir

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 12. nóvember 2023 09:00

Ásdís var síðasta eftirlifandi barn Ríkarðs Jónssonar. Afturköllun hennar á stórum gjafagjörningi hefur valdið miklu fjaðrafoki.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 21. apríl árið 2021 afturkallaði hin 99 ára gamla Ásdís Ríkarðsdóttir hundruð milljón króna gjafagjörning sinn Ríkarðssafns, safns föður hennar myndhöggvarans Ríkarðs Jónssonar á Djúpavogi. Yfirlýsingin kom flatt upp á stjórn safnsins hjá sveitarfélaginu Múlaþingi sem hafði heitið fé til stækkunar safnsins. Þrátt fyrir tilraunir náði stjórn safnsins aldrei tali af Ásdísi.

Þegar Ásdís lést í síðasta mánuði kom í ljós að hún hafði gert erfðaskrá um sama leyti og arfleitt hluta af ætt sinni, börn bróður síns Más, af öllum stærstu eignum sínum. Þessir ættingjar hennar höfðu sumir hverjir setið í stjórn safnsins og verið viðstaddir þegar afturköllunin var gerð.

Aðrir ættingjar Ásdísar telja að illa hafi verið komið fram við aldna frænku sína og hafa krafist þess að Múlaþing samþykki ekki afturköllunina. Eignirnar eru meðal annars hluti jarðar í Mosfellsbæ, einbýlishúss í Grafarvogi, ágóði sölu íbúðar á Akranesi og fleira.

Einn fremsti listamaður þjóðarinnar

Ríkarður Jónsson (1888 til 1977) var á meðal fremstu listamanna landsins, sá fyrsti til að nema útskurðarlist á Íslandi. Hann bjó meðal annars til fyrsta landvættaskjaldarmerki Íslands, fundarhamar Sameinuðu þjóðanna og fræga fálkastyttu sem Djúpavogshreppur keypti dýrum dómum á uppboði í London árið 2018.

Ríkarður Jónsson lést árið 1977. Mynd/Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Ríkarður bjó mest alla ævina í Reykjavík og hafði vinnustofu við Grundarstíg en hann var alinn upp í Hamarsfirði. Það var því á Djúpavogi sem safn honum til heiðurs var komið á fót um miðjan tíunda áratuginn.

Safnið stendur í gömlu húsi sem kallast Langabúð, sem þykir óhentugt og margir gripir eru geymdir í óhituðu háalofti og er hætt við skemmdum. Það voru dætur Ríkarðs sem börðust fyrir því að nýtt Ríkarðssafn yrði reist og ánöfnuðu öllum eigum sínum til safnsins að þeim látnum.

Risagjöf

Ríkarður átti fjögur börn. Má Ríkarðsson sem lést úr berklum rúmlega þrítugur árið 1946, Björgu sem lést árið 2010 og tvíburana Ólöfu og Ásdísi. Hin tvö fyrrnefndu eiga afkomendur sem koma við sögu í þessari frétt en Ólöf og Ásdís, sem bjuggu saman, dóu barn og lögerfingjalausar. Ólöf árið 2017 og Ásdís eins og fyrr segir í október árið 2023.

Árið 2013 tilkynntu systurnar með mikilli viðhöfn á Djúpavogi að þær myndu gefa eigur sínar til uppbyggingar safnsins eftir sinn dag. Þetta var skjalfest í svokallaðri stofnskrá Ríkarðshúss. Á sama tíma tilkynntu fulltrúar sveitarfélagsins að það myndi leggja til húsgrunn og lóð að verðmæti 30 milljóna króna til móts við gjöfina.

Einbýlishúsið að Klukkurima 18 er með fasteignamat upp á 123 milljónir króna.

Verðmæti gjafar systranna voru umtalsverð. Stærstu eignirnar voru einbýlishús við Klukkurima 18 í Reykjavík sem hefur nú fasteignamat upp á tæpar 123 milljónir króna, 2/3 hlutar jarðarinnar Miðdals II í Mosfellbæ með fasteignamat upp á 520 milljónir og íbúð við Vesturgötu 70 á Akranesi sem hefur í dag fasteignamat upp á 29 milljónir.

Auk þess flygill, píanó, málverk eftir Kjarval og aðra stórmálara Íslands og talsvert af verkum Ríkarðs sjálfs og réttindi að þeim.

Utan um þetta kom Múlaþing á laggirnar félagi, Ríkarðshúsi, með stjórn sem í sitja fulltrúar frá Múlaþingi og tveir afkomendur Más Ríkarðssonar. Það er Björn Þorgeir Másson og Már Guðlaugsson.

Ættingjar viðstaddir afturköllunina

Lárus Sigurður Lárusson lögmaður var fenginn til þess að skrifa upp afturköllun Ásdísar í apríl 2021. Hann segist muna eftir því að hafa komið að heimili hennar í Grafarvogi og þar hefðu verið nokkuð af fólki.

„Aðkoma mín að þessu máli var stutt. Ég útbjó bréf fyrir hana þar sem hún lýsti þessum vilja sínum. Þetta var mjög fullorðinn einstaklingur og ég gerði það að skilyrði að ég myndi hitta hana fyrst og ganga úr skugga um að þetta væri hennar vilji,“ segir Lárus. Fólk á þessum aldri geti verið misvel áttað.

Sá sem vottaði bréfið ásamt Lárusi var Ríkarður Már Ríkarðsson afabarn Más Ríkarðssonar.

Ásdís lést í síðasta mánuði 101 árs að aldri. Skjáskot/Stöð 2

Uppgefnar ástæður í afturkölluninni voru þær að áætlanir sveitarfélagsins um uppbyggingu húsnæðis hefðu brugðist.

„Loforð mitt um að gefa eigur mínar aftur á móti var gefið á þeim forsendum að andvirði þeirra yrði nýtt til þess að byggja nýtt húsnæði fyrir safnið. Var þetta forsenda fyrir gjafaloforði mínu og ákvörðunarástæða sem loforðsmóttakanda, Djúpavogshreppi, nú Múlaþingi, var fullkunnugt um,“ segir í bréfinu. „Í ljósi þess að sveitarfélagið hefur endanlega horfið frá öllum áformum um að standa við ofangreint og byggja nýtt húsnæði yfir Ríkarðshús er gjafaloforð mitt ekki lengur skuldbindandi.“

Kom flatt upp á stjórnarformann

Fréttablaðið greindi frá því í júní 2021 að afturköllunin hefði komið flatt upp á Gauta Jóhannesson, forseta sveitarstjórnar Múlaþings og stjórnarformanns Ríkarðshúss. Fjallaði blaðið um málið í nokkrum greinum.

Safnið er nú í Löngubúð og margir munir geymdir við slæmar aðstæður. Mynd/Múlaþing

Kom fram að upphaflega hafi staðið til að koma safninu fyrir í Vogalandi 5 en að lokum húsi sem nefnist Sambúð sem hafði útsýni yfir Búlandstindinn sem hafi verið skilyrði sem systurnar settu.

„Þetta er húsnæði sem systrunum hugnaðist. Það er mjög vel staðsett í bænum,“ sagði Helgi Hlynur Ásgrímsson formaður heimastjórnar Djúpavogs við Fréttablaðið í mars árið 2022.

Umbjóðandinn hafi ekki áhuga á að ræða málið

Í fundargerðum Ríkarðshúss kemur fram að Gauta hafi verið falið að funda með Ásdísi um afturköllunina. En þann 22. júlí árið 2021 barst annað bréf frá Ásdísi, titlað sem yfirlýsing. Þar voru nefndar ástæður þær að Ásdís hafi fengið takmarkaðar upplýsingar frá sveitarfélaginu um framgang safnsins og að núverandi geymslurými munanna væri óviðunandi.

„Einnig má það koma fram að í gegnum tíðina hafa allar ákvarðanir sem lúta að málefnum föður okkar verið teknar af Ólöfu Ríkarðsdóttur og ekki leitað álits frá mér og er það fyrst nú sem ég hef möguleika til að taka eigin ákvarðanir,“ segir í bréfinu.

Þann þriðja september upplýsti Gauti stjórn Ríkarðshúss að hann hefði ekki náð fundi með Ásdísi. Þann 22. mars árið 2022 barst svo bréf frá lögmanninum Gizuri Bergsteinssyni fyrir hönd Ásdísar þar sem óskað var eftir því að safnið gerði ekki athugasemd við afturköllunina.

„Umbjóðandi minn, sem á aldarafmæli 14. júní n.k., hefur ekki áhuga á að ræða ákvörðun sína sérstaklega,“ segir í bréfinu.

Afturköllun á veikum grunni samþykkt

Þann 26. október árið 2022 lýsti stjórn Ríkarðshúss yfir vonbrigðum með ákvörðun Ásdísar og að forsendur hennar byggi á veikum grunni. Voru þó ekki gerðar athugasemdir við afturköllunina þó það stæði í stofnskránni að framlagið væri óafturkræft.

Gauti Jóhannesson stjórnarformaður Ríkarðshúss fékk aldrei að tala við Ásdísi eftir afturköllunina. Mynd/Múlaþing

„Sú ákvörðun er ekki síst tekin af virðingu við þær systur Ásdísi og Ólöfu Ríkarðsdætur og arfleið föður þeirra Ríkarðs Jónssonar,“ segir í bókun fundar.

Var stofnskránni breytt með tilliti til þess að fjármögnunin skerðist verulega við þessa ráðstöfun.

Á næsta fundi, þann 30. mars á þessu ári, tilkynnti Björn Þorgeir Másson að hann hygðist láta af stjórnarsetu í Ríkarðshúsi.

Afkomendur Más í erfðaskránni

Þegar Ásdís lést kom í ljós að hún hafði gert nýja erfðaskrá þann 26. apríl árið 2021. Kom þar fram að afkomendur Más erfa fasteignirnar, jörðina og bankainnistæður. En fasteignin á Akranesi hafði þá verið seld.

Þetta eru Björn Þorgeir Másson, María Másdóttir og Ríkarður Már Ríkarðsson. Auk þess fær Sara María Björnsdóttir, dóttir Björns Þorgeirs, 5 milljón krónur í sinn hlut.

Munirnir fara áfram til Ríkarðssafns en 500 þúsund krónur sem Ásdís hafði ánafnað kattavinafélaginu Kattholti í fyrri erfðaskrá eru þar ekki lengur.

Aðrir ættingjar Ásdísar, það er afkomendur Bjargar, eru ekki nefndir í erfðaskránni.

Hefur ekki rætt við Björn

Gauti Jóhannesson segist ekki hafa vitað að afkomendur Más, þar með talinn Björn Þorgeir Másson sem sat í stjórninni, hafi verið komnir í erfðaskránna. Hann segist heldur ekki hafa rætt við Björn nýlega út af þessu.

„Ég ætla að bíða með að svara þessu þangað til ég hef kynnt mér þetta betur,“ segir Gauti aðspurður um hvað honum sem stjórnarformanni félagsins finnist um þetta vendingu.

Gauti staðfestir að aldrei tókst að ná tali af Ásdísi eftir að afturköllunin barst þrátt fyrir tilraunir. „Eins og við skildum þetta þá var þetta hennar vilji. Samkvæmt bréfum sem við fengum frá lögmanninum,“ segir Gauti.

Hann segir þetta hafa mikil áhrif á Ríkarðssafn. „Það gefur augaleið að það hefur töluverð áhrif þegar helmingur af því fjármagni sem ætlaður var til safnsins er ekki lengur til staðar,“ segir hann.

Safnið er enn þá í Löngubúð og ekki hafa verið teknar ákvarðanir um að færa það. Þá liggur ekki fyrir hvort að útgjöld sveitarfélagsins til safnsins verði aukin vegna þessa.

Svara ekki

DV leitaði til afkomenda Más til að spyrja þá hvort þeir vissu af hverju erfðaskránni var breytt og af hverju þeir væru komnir í hana en hafði ekki erindi sem erfiði.

Ríkarður Már Ríkarðsson. Mynd/SI

„Ég er hérna á ferðinni í bíl og get ekki talað við þig eins og er,“ sagði Björn Þorgeir Másson þegar blaðamaður DV kynnti sig og spurði um arfinn. Sleit hann símtalinu þar með og svaraði ekki þegar reynt var að hringja síðar.

Ríkarður Már Ríkarðsson vildi ekki tjá sig. „Ég ætla ekki að svara neinu um þetta,“ sagði hann.

Krefjast þess að gjöfin standi

Eins og gefur að skilja eru afkomendur Bjargar, þau Þorsteinn, Þórhildur og Ríkarður Már Pétursbörn, ekki sátt við hvernig þetta mál hefur þróast. Hafa þau óskað eftir því við sveitarfélagið Múlaþing að krefjast þess að gjafagjörningurinn standi enda segi það í stofnskránni að hann sé óafturkræfur.

Í bréfi sem Þorsteinn sendi fyrir hönd þeirra til Lárusar lögmanns sumarið 2021 vegna afturköllunarinnar kemur fram að Ásdís hafi verið viðstödd nær alla fundi um safnið og aldrei gert athugasemdir. Vinna við að koma upp Ríkarðssafni hafi staðið yfir í áratugi og hún sé nú í hættu.

Hafi hann heyrt frá Ásdísi að sex manns hafi verið í Klukkurima þegar afturköllunin var gerð, talað hafi verið um fyrir henni og henni talin trú um að stofnskráin og fyrri erfðaskrá gilti ekki. Hægt væri að afturkalla gjörninginn með einu bréfi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Að öllu óbreyttu verður þetta endanlegur fjöldi forsetaframbjóðenda

Að öllu óbreyttu verður þetta endanlegur fjöldi forsetaframbjóðenda
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Kveiks-fíaskóið vandræðalegt fyrir RÚV í ljósi tengsla útvarpsstjóra

Kveiks-fíaskóið vandræðalegt fyrir RÚV í ljósi tengsla útvarpsstjóra
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik