Ungur maður hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárás vegna kjaftshögg sem hann veitti 14 ára unglingi árið 2021. Unglingurinn var þá að misþyrma vinkonu ákærða og greip ákærði inni í með fyrrgreindum hætti.
Brotaþolinn kjálkabrotnaði í árásinni og þurfti um skeið að nærast á fljótandi fæði. Hann hefur nú náð sér eftir árásina.
Atvikið átti sér stað á Vesturlandi og var málið rekið fyrir Héraðsdómi Vesturlands. Vitni voru að átökunum og bar þeim saman um að hinn ákærði hefði komið stúlkunni til varnar. Dómara þótti samt skilyrði laga um neyðarvörn ekki uppfyllt. Í dómnum segir:
„Neyðarvörn er samkvæmt 12. gr. almennra hegningarlaga lögmæt réttarvörsluathöfn einstaklings, sem felur í sér nauðsynlega beina valdbeitingu gegn manni til þess að verjast eða afstýra ólögmætri árás á þann sem neyðarvörninni beitir, eða á einhvern annan mann. Þá ber við neyðarvarnarverk að gæta þess að beita ekki vörnum sem séu augsýnilega hættulegri en árásin og tjón það sem af henni mátti vænta gaf ástæðu til. Í 13. gr. er kveðið á um að það verk sé refsilaust, sem nauðsyn bar til að unnið væri í þeim tilgangi að vernda lögmæta hagsmuni fyrir yfirvofandi hættu, þótt með því séu skertir aðrir hagsmunir, sem telja verður að miklum mun minni.“
Í dómnum segir að sönnunarbyrði um neyðarvörn hvíli á þeim sem beitir henni og séu gerðar strangar kröfur um sönnunarfærslu enda sé um að ræða einstaklingsbundna réttarvörslu. Síðan segir um málið:
„Málsvörn ákærða byggir á því að við honum hafi blasað á verknaðarstundu að vitnið [E…] sem hafi þá verið undir árás brotaþola hafi verið í lífshættu, eða a.m.k. hafi verið hætta á því að frekari atlaga brotaþola gæti leitt til mjög alvarlegra afleiðinga fyrir hana. Því hafi honum verið nauðugur sá kostur að grípa inn í atburðarásina. Ákærði lýsir því svo að hann hafi séð brotaþola sparka, að því er virtist ítrekað, í [E…] eftir að hún hafi fallið í jörðina.
Þessi framburður ákærða fær þó litla stoð í öðrum framburði fyrir dómi. Vitni greina frá ítrekuðum höggum brotaþola í höfuð [E…] og án nokkurs vafa alvarlegri líkamsárás. Hins vegar verður ekki ráðið af framburði vitna sem urðu bein vitni að árás brotaþola að hann hafi gengið í skrokk á henni með ítrekuðum spörkum eftir að hún féll til jarðar vegna högga frá brotaþola, utan framburðar …, sem þó var ekki mjög skýr og í nokkru ósamræmi við annan framburð.“
Dómari viðurkenndi að árás brotaþola á stúlkuna hafi verið alvarleg en taldi ekki fullsannað að hún hefði gefið tilefni til þess inngrips sem ákærði beitti.
Hins vegar höfðu kringumstæður áhrif á ákvörðun refsingar og var niðurstaðan sú að ákærði er sakfelldur fyrir líkamsárás en ekki gerð nein refsing.
Dóminn má lesa hér.