„Ég leita alltaf af mér allan grun þegar ég fer á hótelherbergi erlendis. Ég kíki bara undir dýnuna og koddaverið og þessa helstu felustaði í kringum svefnstaðina.“
Þetta sagði Matthías Alfreðsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, í þættinum Þetta helst á RÚV. Í þættinum var rætt um veggjalýs sem verið hafa á milli tannanna á fólki undanfarin misseri. Matthías var gestur þáttarins ásamt Steinari Smára Guðbergssyni meindýraeyði.
Þeir sem sjá um meindýravarnir hér á landi hafa vakið athygli á fjölgun veggjalúsarinnar að undanförnu. Steinar Smári er einn þeirra og sagði hann í viðtali við Morgunblaðið í október síðastliðnum að þokkalega mikið hafi verið af þessum kvikindum fyrir Covid en eitthvað hafi dregið úr þeim í miðjum faraldri.
„Svo þegar fór að létta á þessum samkomutakmörkunum, þá varð bara sprenging,“ sagði Steinar.
Á vef RÚV er fjallað um þáttinn og orð þeirra Matthíasar og Steinars sem myndu frekar velja að búa með silfurskottum en veggjalús – af tveimur slæmum kostum.
„Ef það er eitthvað sem þú vilt ekki pikka upp á föstudagskvöldi og taka með þér upp í rúm, þá er það veggjalús. Því þar hún og kúrir, læðist hún fram á nokkurra daga fresti, þegar þú ert komin í REM-svefn, stingur og sýgur úr þér blóðið. Hennar aðalsmerkið eru þrjú bit, oftast svona einn til tveir sentímetrar á milli bita,“ segir Steinar í þættinum.
Hann segir það vera feimnismál þegar veggjalús kemur upp en staðreyndin sé sú að það sé bara óheppni þegar fólk fær hana í heimsókn. Hægt sé að pikka þær upp í leigubílum, flugvélum, lestum eða á hótelum.
Hægt er að hlusta á Þetta helst í hlaðvarpsveitum og þá er þátturinn aðgengilegur á vef RÚV.