fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Davíð gagnrýnir dóma í Fjarðarkaupsmálinu – „Gleymum því ekki að þetta er kaldrifjað morð á ungum manni í blóma lífsins“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 5. nóvember 2023 19:00

Davíð Bergmann

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Davíð Bergmann æskulýðsráðgjafi setur spurningamerki við dóma yfir sakborningunum fjórum í Fjarðarkaupsmálinu. Þar var 19 ára piltur dæmdur í 10 ára fangelsi fyrir að stinga pólskan mann sex sinnum, þar á meðal í hálsinn, svo brotaþolinn hlaut bana af. Tveir 18 ára piltar, sem spörkuðu hrottalega í brotaþolann, voru dæmdir í tveggja ára fangelsi hvor, og stúlka sem var með þeim og tók árásina upp á myndband, var dæmd í eins árs skilorðsbundið fangelsi.

Sjá einnig: Morðið við Fjarðarkaup: Fyrir hvað var stúlkan dæmd? – „HANN FUCKING STAK GÆJA 6 SINNUM“

Davíð fjallar um málið í aðsendri grein á Vísir.is og segir:

„Eru þetta rétt skilaboð út í samfélagið að dæma svona í jafn alvarlegu máli sem þessu? Ég spyr mig þeirra spurninga í dag þó svo að gerendurnir séu ungir að árum. Ég vil taka það fram hér að ég er ekki talsmaður harðra refsinga en ég spyr mig samt sem áður þeirra spurninga eru einhver ákvæði í dómnum á afplánunartíma sem þessir krakkar þurfa að uppfylla, annað en að sitja dóminn af sér.

Gleymum því ekki að þetta er kaldrifjað morð á ungum manni í blóma lífsins og það er fólk í kringum þann sem var drepinn, sem er einungis skildir eftir með minninguna um hann og hann skilur eftir sig þriggja ára dóttur sem verður föðurlaus og fær að launum þrjár milljónir í miska. Og það út af 5000 kalli sem átti að rukka með vöxtum sem endar með þessari skelfingu.“

Davíð segir mikilvægt að vinna með unga afbrotamenn með þeim hætti að þeir taki ábyrgð á brotum sínum og horfist í augu við afleiðingar þeirra:

„Ég vil koma með nýja nálgun í þessum málaflokki eins og ég hef talað fyrir um í dauf eyru ráðamanna í áratugi. Ég hef lengi verið þeirra skoðunar að YOT sem stendur fyrir “youth offending team” sé það sem við eigum að taka okkur til fyrirmyndar í þessum málaflokki. Sú hugmyndafræði kemur frá Bretlandi og gengur út á það að vekja unga afbrotamenn til umhugsunar hver eru orsök og afleiðingar afbrota. Ekki bara fyrir þá heldur fórnarlambið og þá sem standa því næst. Eins hans eigin fjölskylda sem verður vissulega fórnarlömb aðstæðna og samfélagið í held sinni. Það gleymist iðulega í þessari umræðu hver er réttur hins almenna borgara. Ef þetta hefði verið sonur minn sem hefði verið drepinn svona, hefði ég viljað þessa niðurstöðu. Stutta svarið við þeirri er nei ég hugsa að ég myndi taka lögin í mínar hendur til að koma fram réttlæti.“

Davíð hefur áður rætt um þessa hugmyndafræði í viðtali við Frosta Logason. Þar segir meðal annars í endursögn DV:

„Þetta er eitt flottasta úrræðið þegar kemur að dómstólum ungmenna. Hvernig á að dæma ungmenni? Ég ætla að taka eitt lítið dæmi. Drengur var staðinn að því að kveikja í gámi á skólalóðinni. Hvað var gert? Hann fór ekki á málaskrá eða beið í einhvern langan tíma, heldur var tekið á málunum. Hann þurfti að sinna ákveðinni vinnu með húsverðinum í skólanum. Hann þurfti að sækja sér ákveðna fræðslu hjá slökkviliðinu um skaðsemi bruna. Þessi dómur er þannig samansettur – við höfum auðvitað ekki hefð fyrir því hérna á Íslandi að vera með sjálfboðaliða – en þarna var dómari sem var kominn á eftirlaun, sem dæmdi í málinu, og í samvinnu við félagsráðgjafa, lögregluna og einn úr hverfaráðinu. Auðvitað er allt þetta fólk bundið trúnaði,“ segir Davíð og bendir á að hér á Íslandi hafi aldrei tíðkast að dæma til meðferðar, en þetta gefi góða raun í Bretlandi. „En hins vegar, ef þú uppfyllir ekki skilyrði dómsins, t.d. hann átti að skila af sér ritgerð, þar sem hann átti að gera grein fyrir iðrun sinni í samvinnu við fjölskylduna og tilsjónarmanninn sem honum var skipaður, þar sem hann á að koma fyrir þennan dómstól, með bindi, af því að hann á að bera virðingu fyrir dómstólnum. Ekki þannig að hann eigi að snúa sér við í kameruna og gefa fokkmerki eins og maður hefur séð þegar verið er að leiða menn í héraðsdóm. Heldur á hann að bera virðingu fyrir dómnum. Ef hann uppfyllir svo ekki skilyrðin sem eru sett í Youth Offending Team þá fer hann bara fyrir hárkolludómara sem dæmir hann eins og fullorðinn einstakling.“

Sjá einnig: Davíð ræðir um unga afbrotamenn sem gefa fokkmerki í héraðsdómi – „Hvert erum við komin?“ – Svona vill hann taka á málunum

Davíð segir tímabært að horfast í augu við hörkuna sem orðin er í afbrotum ungmenna á Íslandi. Hann kallar eftir aðgerðum og segir:

„Dómsmálaráðherra ég er með ÁSKORUN til þín það þarf að gera eitthvað að alvöru í þessum málaflokki og ekki seinna en í gær.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe