Íbúar í Grindavík þurftu að þola strembna nótt enda hefur mikill fjöldi jarðskjálfta riðið yfir í grennd við bæinn. Samkvæmt tilkynningu frá Náttúruvárvakt Veðurstofu Íslands hófst mikil skjálftavirkni upp úr miðnætti á Reykjanesskaga og hafa alls um 450 jarðskjálftar riðið yfir.
Stærsti skjálftinn mældist 4,2 að stærð kl. 3:51 um 1,2 km vestur af Bláa Lóninu og fannst hann vel í Grindavík sem og víða á suðvesturhorninu. Í tilkynningunni kemur fram að Virknin sé túlkuð sem kvikuhlaup á um 4-5 km dýpi en engar vísbendingar eru um gosóróa að svo stöddu.
Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum hefur lýst yfir óvissustigi Almannavarna vegna jarðskjálftahrinunnar.