Tilkynnt var um meiriháttar líkamsárás í hverfi 113 rétt fyrir klukkan fimm í morgun. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu vegna verkefna gærkvöldsins og næturinnar. Ekki er vitað meira um málið á þessari stundu og er það í rannsókn.
Lögreglu var tilkynnt um umferðarslys í Hafnarfirði rétt fyrir klukkan 23 í gærkvöldi. Ekið var á hjólreiðamann og var hann fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku til frekari skoðunar.
Eitthvað var um tilkynningar um fólk í annarlegu ástandi sem lögregla afgreiddi á vettvangi og þá eitthvað um veikindi þar sem kallað var eftir aðstoð lögreglu.
Lögregla handtók svo fjóra einstaklinga rétt eftir miðnætti í miðborginni vegna húsbrots. Þau voru öll vistuð í fangageymslu.
Alls voru átta ökumenn teknir úr umferð vegna aksturs undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.