Samfélagsmiðillinn X, sem áður hét Twitter, er meira en helmingi verðminni en þegar ríkasti maður heims, Elon Musk, keypti fyrirtækið fyrir ári síðan.
Í gær fengu útvaldir starfsmenn fyrirtækisins kaupréttasamninga í því en miðað við það er virði fyrirtækisins 19 milljarðar bandaríkjadala. Það er um 55% minna en kaupverðið sem Musk reiddi fram á sínum tíma sem voru 45 milljarðar króna. Verðmiðinn byggist á mati stjórnenda fyrirtækisins en þar fer Elon Musk með öll völd og hefur meðal annars ekki enn skipað í formlega stjórn samfélagsmiðilsins.
Óhætt er að segja að yfirtaka Musk á samfélagsmiðlinum hafi verið umdeild og hann hefur stýrt honum í átt sem mörgum hugnast ekki. Nafnabreytingin vakti til að mynda gríðarlega athygli enda var Twitter orðið afar þekkt vörumerki og vandséð hver ávinningurinn átti að vera.
Greinendur eru sumirhverjir á því að verðmiði upp á 19 milljarða bandaríkjadali sé enn of rausnarlegur fyrir fyrirtækið og að verðmætti þess sé enn minna.