Fjöldamorðinginn Robert Card, sem á miðvikudag drap 18 manns og særði 13 í skotárás á keilusal og bar í borginni Lewiston í Maine-fylki í Bandaríkjunum, fannst látinn. CNN greinir frá því að Card hafi fundist í nærri endurvinnslustöð í borginni með áverka eftir skotvopn og bendir allt til þess að hann hafi svipt sig lífi. Hann tengdist staðnum en nýlega hafði hann verið rekinn úr vinnu á stöðinni.
Eins og greint hefur verið frá fannst kveðjubréf frá morðingjanum við leit á heimili hans en það var stílað á ungan son hans.
Fylkisstjóri Maine, Janet Mills, brást við dauða Card með þeim orðum að íbúum væri létt enda hafði engum staðið á sama að vopnaður og hættulegur fjöldamorðingi væri á flótta. Ýmis fyrirtæki og vinnustaðir höfðu til að mynda lokað starfsemi sinni á meðan leitin af Card stóð yfir. Sagði Mills að nú myndu íbúar Maine sleikja sárin eftir voðaverkin hræðilegu.