Hinn grunaði fjöldamorðingi Robert Card er enn á flótta undan réttvísinni í Maine-fylki í Bandaríkjunum. Á miðvikudag réðst hann inn í keilusal og bar í borginni Lewiston og skaut þar 18 manns til bana og særði 13.
Lögreglan telur að tilviljun hafi ekki ráðið því að Card réðst inn á umrædda staði. Hann þekkti vel til á þeim og á einum þeirra starfaði meðal annars fyrrum kærasta hans en hún var ekki á vettvangi þegar árásin átti sér stað.
Card undirbjó árásina vel og passaði sig meðal annars á því að skilja eftir farsíma og annað sem hann taldi að lögreglan gæti notað til að hafa upp á sér.
Fréttir hafa borist af því að kveðjubréf hafi fundist á heimili fjöldmorðingjans sem að stílað var á son hans. Svo virðist því sem Card búist við því að hann muni ekki verða gómaður lifandi.
Þá hefur verið greint frá því að hann glími við alvarleg geðræn veikindi og hafi verið lagður inn á geðdeild í sumar. Haft hefur verið eftir fjölskyldumeðlimum að Card þjáist af geðklofa.
Þá virðist hann hafa verið djúpt sokkinn í vef samsæriskenninga. Meðal annars um yfirvofandi hrun fjármálamarkaða, málefni LGBTQ+, umræðu um byssueign sem og efni um fulltrúa Demókrataflokksins og þá sérstaklega Joe Biden forseta.
Hann virðist þó ekki hafa nein tengsl við innlend hryðjuverkasamtök og allt bendir til þess að hann hafi skipulagt árásina einn.
Leitin af Card verður sífellt umfangsmeiri en hann ógrynni ábendinga hafa borist til yfirvalda vegna málsins. Þannig umkringdi lögregla hús í borginni Bowdoin og kallaði á Card að gefast upp en lögreglan hafi gripið í tómt.
Búast má við því að enn verði hert á leit lögreglu í kvöld og um helgina.