fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Úkraínumenn eru komnir yfir ána Dnepr – Getur haft afgerandi áhrif að mati hernaðarsérfræðings

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 24. október 2023 04:04

Úkraínskir hermenn á vígvellinum. Mynd:Úkraínska varnarmálaráðuneytið/Twitter

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um langa hríð hefur áin Dnepr í Úkraínu markað landamæri á milli þeirra landsvæða sem annars vegar Rússar hafa á valdi sínu og hins vegar þeirra landsvæða sem Úkraínumenn hafa á sínu valdi. En nú er búið að rjúfa þessi landamæri á nokkrum stöðum.

Úkraínskum hermönnum hefur tekist að komast yfir ána í suðurhluta Kherson, beint inn á rússneskt yfirráðasvæði. Esben Salling Larsen, hernaðarsérfræðingur hjá danska varnarmálaskólanum, sagði í samtali við Jótlandspóstinn að þetta veiti Úkraínumönnum mikið tækifæri.

„Þetta gæti orðið risastórt. Ef þeim tekst að koma upp öflugu brúarhöfði, þá hafa þeir tækifæri til að sækja enn meira fram á svæði þar sem Rússar eru óundirbúnir,“ sagði hann.

Hann byggir þetta mat sinn á nýrri greiningu bandarísku hugveitunnar Institute for the Study of War (ISW). Í henni kemur fram að úkraínskar hersveitir séu komnar yfir ána og hafa náð að styrkja stöðu sína þar án þess að Rússum hafi tekist að gera þeim stórar skráveifur.

Rússneskir herbloggarar hafa skýrt frá úkraínskum hersveitum um fjóra kílómetra austan við Dnepr.

BBC sagði um helgina að 46. herdeild úkraínska hersins hafi háð harða bardaga við rússneskar hersveitir við bæinn Krynky. Ef Úkraínumönnum tekst að ná honum á sitt vald, getur það gert þeim kleift að blása til stórsóknar austan við ána.

Larsen sagði að það dugi ekki eitt og sér að Úkraínumenn séu komnir yfir ána. Ef þetta eigi að skila góðum árangri verði þeir að ná að koma upp brúarhöfði, svæði þar sem þeir geta á öruggan hátt flutt hermenn og hergögn um.

En sókn Úkraínumanna yfir ána getur nú þegar haft áhrif á gang stríðsins því nú verða Rússar enn einu sinni að færa herdeildir til, herdeildir sem var búið að flytja frá svæðinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe