Þrjár manneskjur, tveir karlar og ein kona, brutust inn í gamla Tónabíós-húsið við Skipholt, um hábjartan dag í gær (sunnudag), stálu verðmætum og unnu skemmdir á forláta útidyrahurð hússins. Tvö myndbönd náðust af vettvangi sem hér hafa verið felld saman í eitt en þau sýna fólkið annars vegar brjótast inn og fylgjast með mannaferðum, og hins vegar flýja af vettvangi eftir að öryggiskerfi fór í gang.
Tónabíó hefur verið í fréttum að undanförnu vegna þess að framsæknir aðilar ætla að endurvekja starfsemi í húsinu. Þar var um áratugaskeið rekið kvikmyndahús og eftir það hélt Vinabær vinsæl bingókvöld í húsinu. RVK Bruggfélag er að flytja starfsemi sína í húsið, bar og bjórstofu. Aðrir aðilar koma til með að bjóða upp á bíósýningar í húsinu en bruggfélagið mun sjá um veitingar í tengslum við það.
„Hann fór í kassakerfið og reyndi að brjóta upp skúffur en við erum ekki farin að selja neitt fyrir reiðufé. Svo hirti hann iPad og Apple TV. Þá fór kerfið í gang og hann flúði af vettvangi,“ segir einn af forsvarsmönnum RVK Bruggfélags í samtali við DV og bætir við:
„Fáránlegt af þeim að stela iPadnum því við getum séð hvar hann er.“
Eins og myndbandið ber með sér bar fólkið sig þannig að að annar karlmannanna fór inn í húsið og stal verðmætum á meðan konan og hinn maðurinn voru á verði fyrir utan. Við innbrotið var 60 ára gömul útidyrahurðin skemmd ásamt læsingu. Tjón vegna innbrotsins hleypur á einhverjum hundruðum þúsunda. Að sögn RVK Bruggfélagsmanna mun atvikið ekki breyta þeim áformum að opna Tónabíó upp á gátt upp úr næstu helgi og eftir það mun húsið iða af lífi.
Lögregla rannsakar málið og hefur uppfærðar upplýsingar frá RVK Bruggfélagi. Á meðan fréttin var í vinnslu logaði enn á merki stolnu spjaldtölvunnar og sýnir það að þjófarnir halda til í Bolholt Apartments í næsta nágrenni. Eiganda íbúðanna hefur verið gert viðvart um það.
„Þetta er mjög bífræfið, að gera svona um hábjartan dag, og þetta virðist svo skipulagt að það kæmi mér ekki á óvart að þau væru að gera það sama á fleiri stöðum. Maður upplifir sig varnarlausan,“ segir talsmaður RVK Bruggfélags, sem vonar að lögreglan bregðist við af snerpu. Hann þekkir til eldri, svipaðra mála, þar sem lögregla hefur verið sein til rannsóknar og vonar að það endurtaki sig ekki í þessu máli, þar sem býsna sterk sönnunargögn liggja fyrir og búið er að staðsetja mjög líklega gerendur.