Landsréttur hefur fellt úr gildi þá ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur að vísa frá dómi ákæru héraðssaksóknara í hinu svonefnda og margnefnda hryðjuverkamáli. Tveir ungir menn eru þar sakaðir um tilraun til hryðjuverka og er þar að mestu byggt á netspjalli þeirra þar sem reifaðar voru ýmiskonar hugrenningar um ofbeldisverk.
Ákærunni var vísað frá á þeim forsendum að það skorti í hana raunverulegar verknaðarlýsingar. Landsréttur hefur nú snúið við þeirri ákvöðrun og í úrskurðarorðum segir meðal annars að ekki fari á milli mála fyrir hvaða háttsemi ákærðu eru ákærðir fyrir og að ekki verði talið að þeim sé á grundvelli ákæru gert torvelt að taka afstöðu til sakargifta og halda uppi vörnum.
Úrskurður héraðsdóms um frávísun er því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka ákæruna til efnismeðferðar.
Sveinn Andri Sveinsson, verjandi annars mannsins, segir í samtali við DV um þessa niðurstöðu:
„Ég er svosem ekki sammála þessari niðurstöðu Landsréttar. Úrskurður héraðsdóms var mjög vel rökstuddur og ég er enn þá á því að sú niðurstaða sé rétt. En við verjendur deilum ekki við dómarann. Það má líka segja að það jákvæða við þetta er að það er betra að fá hreina sýknu en að málið endi úti skurði eins og í stefndi. Minn umbjóðandi óttast ekki efnismeðferð.“