Ásta skrifar athyglisverða grein í Morgunblaðið í dag í tilefni af Kvennafrídeginum á morgun, 24. október, en eins og kunnugt er hefur verið boðað til allsherjarverkfalls kvenna í tilefni dagsins.
„Það var alltaf ákveðin saga sem mamma rifjaði upp á mínu æskuheimili þegar þessi ágæti dagur rann upp: Kvennafrídagurinn,“ segir Ásta um fyrsta kvennafrídaginn árið 1975.
„Foreldrar mínir voru búsettir í Fellunum í Breiðholti, Asparfelli 10, í lítilli íbúð, með tvö börn – bæði í fullri vinnu við kennslu í Hólabrekkuskóla. Tímarnir voru krefjandi, efnahagsástandið slæmt, húsakostur þeirra takmarkaður og þau unnu samhliða kennslunni hörðum höndum að því að stækka húsakostinn í öðru nýju hverfi í Breiðholtinu.“
Ásta bendir á að mamma hennar hafi alltaf unnið fullan vinnudag frá unga aldri. Hún gerði sér þó engan veginn grein fyrir því hversu mikið hún tók á sig af heimilisstörfunum, þar sem pabbi hennar var sömuleiðis mjög vinnusamur.
Á þessum tíma var hann nýorðinn skólastjóri og las þar að auki fréttir í sjónvarpinu á kvöldin. Aukastörfunum sem mamma hennar sinnti var hins vegar horft fram hjá. Rifjar hún upp hvað móðir hennar sagði nýverið:
„Maður gerði þetta bara – það var enginn að spá í hvort þetta væri eitthvert aukaálag á konum.“
Á þessum tíma hafi það ekki verið kallað þriðja vaktin að kaupa í matinn, elda matinn, þrífa, smyrja nesti, kaupa gjafir og sjá um heimilisbókhaldið svo eitthvað sé nefnt. „Þessu áttu konur bara að sinna á meðan höfuð heimilisins tæki sér lúr í sófanum til að hlaða batteríin eftir erfiðan dag.“
Hún rifjar svo upp augnablikið þegar faðir hennar áttaði sig á mikilvægi vinnuframlags kvenna.
„Ég hefði viljað vera fluga á vegg, þennan ágæta dag, þegar hún tók upp á því að fleygja rétt rúmlega eins árs gömlum bróður mínum í fangið á pabba og segjast vera farin, farin niður á torg til að mótmæla ásamt kynsystrum sínum,“ segir hún og bætir við að mamma hennar hafi lýst því skemmtilega hvernig pabbi hennar stóð hálflamaður með drenginn í fanginu, alveg mát og orðlaus.
„Varla vitandi sitt rjúkandi ráð, því á sama tíma hafði hann horft upp á meirihluta kennarateymisins í Hólabrekkuskóla storma út til að taka þátt í verkfallinu. Hólabrekkuskóli var á þessum tíma þrísetinn enda einn fjölmennasti skóli landsins. Konur voru í meirihluta kennarahópsins. Þar var allt á hliðinni þennan ágæta dag. Skólinn í raun lamaður. Óstarfhæfur,“ segir Ásta í grein sinni og heldur áfram:
„Pabbi heitinn lýsti þessu þannig að á þessari stundu hefði runnið upp fyrir honum hversu svakalega hann og þjóðfélagið í heild reiddi sig á vinnuframlag kvenna. Hversu mikilvægar konur væru fyrir þjóðfélagið, vöxt þess og árangur til framtíðar. Hann varð eftir þetta meðvitaðri um stöðu kvenna og gott ef hann fór ekki að ráða oftar konur í lykilstöður, stjórnendastöður, og hvetja þær áfram. Enda sagði hann, með smá stríðnisblik í augunum, að þær væru oftast klárari og duglegri en karlarnir! Ég fékk að minnsta kosti mikla hvatningu til að láta til mín taka í leik og starfi eftir að ég bættist í fjölskylduhópinn árið 1982,“ segir Ásta.
Hún segir þennan dag mikilvægan enda hafi hann komið okkur á kortið sem einbeitt og sigurviss þjóð í baráttu fyrir jafnrétti kynja. Svo verði vonandi áfram.
„Ég er þakklát fyrir að standa á öxlum þeirra kvenna sem á undan mér komu og mun gera mitt til að bæta stöðu þeirra sem eiga á brattann að sækja í okkar annars góða samfélagi.“