fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Borgarbyggð vill ekki borga fyrir girðingu – Málið tekið fyrir í Hæstarétti

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 18. október 2023 16:44

Hæstiréttur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hæstiréttur gaf í gær út þá ákvörðun sína að samþykkja beiðni sveitarfélagsins Borgarbyggðar um áfrýjun dóms Landsréttar sem kvað upp þann úrskurð að sveitarfélagið skyldi greiða meirihluta kostnaðar eiganda jarðar, í umdæmi sveitarfélagsins, við að reisa girðingu.

Í ákvörðun Hæstaréttar kemur fram að hún snúi að áfrýjun dóms Landsréttar frá 23. júní 2023 í máli Gunnars Jónssonar gegn Borgarbyggð. Gunnar leggst gegn beiðninni.

Ágreiningurinn lýtur að greiðsluþátttöku Borgarbyggðar vegna kostnaðar Gunnars sem eiganda jarðarinnar Króks í Norðurárdal í Borgarfirði af því að reisa girðingu.

Í ákvörðun Hæstaréttar kemur fram að með héraðsdómi hafi Borgarbyggð verið sýknuð af kröfu Gunnars, um að taka þátt í kostnaðinum, meðal annars með vísan til þess að girðingin afmarkaði ekki heimaland og afrétt. Landsréttur taldi hins vegar að girðingin hefði verið sett upp milli afréttar og heimalands í eigu gagnaðila en skæri ekki sama afréttarland. Því tæki 1. málsgrein. 6. greinar girðingarlaga nr. 135/2001 til girðingarinnar. Jafnframt hafi ekki verið talið að ítaksréttindi þeirra sem ættu upprekstrar- og beitarrétt í landinu hindruðu að gagnaðili krefðist þess að girt yrði í samræmi við það ákvæði laganna. Þar af leiðandi dæmdi Landsréttur Borgarbyggð til að greiða Gunnari fjárhæð sem svaraði til 4/5 hluta af kostnaði við að reisa girðinguna.

Borgarbyggð byggir beiðni um áfrýjun til Hæstaréttar á því að túlkun Landsréttar á því hvað teljist heimaland og afréttur geti valdið mikilli óvissu til framtíðar. Niðurstaða Landsréttar valdi einnig óvissu um hvaða girðingum sveitarfélögum beri að viðhalda og hverjum ekki. Þá telji Borgarbyggð að dómurinn gangi þvert á dómafordæmi Hæstaréttar og sé því bersýnilega rangur.

Niðurstaða Hæstaréttar er sú að af gögnum málsins verði talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi meðal annars um túlkun á 1. málsgrein 6. greinar laga nr. 135/2001 um girðingar. Beiðnin um áfrýjunarleyfi var því samþykkt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe