Fagráð Fléttunnar úthlutaði í vikunni tólf styrkjum til nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu, þar af fóru tveir til samstarfsaðila heilbrigðislausna Origo. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti úthlutun styrkjanna sem allir lúta að innleiðingu nýrrar tækni og lausna í heilbrigðiskerfinu.
Í tilkynningu kemur fram að Hrafnista hlaut styrk upp á 11 milljónir króna til innleiðingar á smáforritinu Iðunni sem þróað er af heilbrigðislausnum Origo í samstarfi við Hrafnistu. Iðunn eykur skilvirkni, öryggi og bætir upplýsingaflæði í framvinduskráningu hjúkrunarheimila. Með Iðunni getur starfsfólk hjúkrunarheimila skráð upplýsingar um íbúa í rauntíma og þaðan fara þær upplýsingar beint í Sögu, sjúkraskrá einstaklings. ,,Iðunn mun marka tímamót fyrir öll hjúkrunarheimili á Íslandi og vafalaust fleiri heilbrigðisstofnanir sem munu geta nýtt sér appið. Þetta er stórt framfaraskref fyrir öldrunarþjónustu á Íslandi sem við á Hrafnistu erum stolt af því að leiða,“ segir Harpa Hrund Albertsdóttir, hjúkrunarfræðingur og sérfræðingur á heilbrigðissviði. Þá hlaut Ljósið einnig 7 milljón króna styrk til innleiðingar á WHODAS mælitækinu í Sjúkraskrárkerfi Sögu, en innleiðing þess fer fram í samstarfi við heilbrigðislausnir Origo. Niðurstöður WHODAS mælitækisins munu hjálpa Ljósinu að bera saman þarfir skjólstæðinga og móta þjónustuframboð. Fléttan eru styrkir veittir til nýsköpunarfyrirtækja sem skapa lausnir sem miða að því að auka skilvirkni heilbrigðiskerfisins, bæta þjónustu við sjúklinga og stytta biðlista. Fagráð skipað af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra lagði mat á umsóknir og ráðherra samþykkti tillögur þess.