Búist er við að snjóa muni á morgun á höfuðborgarsvæðinu, í fyrsta sinn þennan veturinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Umferðarþjónustu Vegagerðarinnar. „Suðvestanlands kemur til með að snjóa í talsverðum mæli frá því snemma í nótt og vel fram á morguninn. Svo sem á Hellisheiði og í Þrenglsum með 14-15 m/s. Einnig í Ölfusi og austur fyrir Selfoss. Slydda líklega neðan 100 m á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesbraut,“ segir í umræddri tilkynningu.
Á vef Veðurstofu Íslands er spáin á þessa leið: „Hvessir aftur í nótt. Norðaustan og norðan 10-18 á morgun, en 15-23 syðst fram eftir degi. Slydda eða snjókoma með köflum, hiti 0 til 5 stig. Úrkomulítið suðvestanlands eftir hádegi.“