fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Segir umræðuna um sjókvíaeldi ekki svarthvíta – „Vega að tilverurétti og afkomu fólks“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 9. október 2023 13:26

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er ótrúlega erfitt og vont að hlusta á þá sem vilja útrýma þessari atvinnugrein, því þá eru þeir á sama tíma að vega að tilverurétti og afkomu fólks sem eftir allt sem á undan hefur gengið öðlast trú á framtíð samfélagsins hér fyrir vestan,“

segir Gerður Björk Sveinsdóttir íbúi á Patreksfirði og sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs Vesturbyggðar, í pistli á Vísi. Gerður birti skrif sín í færslu á Facebook í gær og segir þar að í allri umræðunni Í allri umræðunni um sjókvíaeldi sem varla hefur farið fram hjá nokkrum manni sé ein hlið sem lítið hefur farið fyrir. „Það er hlið nærsamfélaganna þar sem sjókvíaeldi er stundað.“

Segir Gerður að miðað við þau viðbrögð sem hún er að fá við pistlinum sýnist henni „ekki vera vanþörf á því að sjónarhorn nærsamfélaganna fái athygli í allri upplýsingaóreiðunni sem verið hefur undanfarið. Sjónarmið sem lítið hefur farið fyrir en nauðsynlegt er að sem flestir sjái og átti sig á að umræðan er ekki svört og hvít.“

Í pistlinum segir Gerður um íbúana: „Okkur er annt um náttúruna, lífríkið og samfélögin sem byggjast upp í kringum eldið og gerum kröfu til þess að umhverfisslys líkt og það sem átti sér stað í Patreksfirði endurtaki sig ekki. Við viljum að allir þeir sem að koma, hvort sem það eru fyrirtækin sjálf, ríkið eða aðrir leggi metnað sinn til þess að hægt sé að sinna þessari nýju atvinnugrein svo að sátt sé um og sómi sé að.“

Löng niðursveifla og mikið vonleysi

Gerður rekur að á sunnanverðum Vestfjörðum hafði verið stöðug fólksfækkun í langan tíma, segist hún þó ekki ætla að rifja upp söguna það séu aðrir sem eru betur til þess fallnir en hún.

„En niðursveiflan var löng og mikils vonleysis gætti. Húsum og götum var ekki viðhaldið svo ég tali nú ekki um stofnanir bæjarins en það voru einfaldlega ekki til peningar til viðhalds. Þeir sem gátu og vildu fara fóru en margir voru fastir í átthagafjötrum þar sem ekki var markaður fyrir húsnæði á svæðinu og ef þú varst það „heppin“ að geta selt þá hafði það ekkert að segja upp í íbúð annars staðar á landinu þar sem húsnæðisverð var það lágt.

Ein þeirra heppnu

Fjármálahrunið hafði engin áhrif hér, hrunið hér varð mikið fyrr svo niðursveiflan sem þið hin funduð fyrir í hruninu hafði engin áhrif á íbúa þessa svæðis, sem voru búin að upplifa hrunið í tugi ára áður en fjármálahrunið varð,“ segir Gerður sem segist hafa verið ein af þeim heppnu. 

„Ég er ein af þeim sem fór suður árið 2004, ég var heppin, ég seldi einbýlishúsið mitt fyrir 4,5 milljónir. Ég kom svo aftur árið 2011, keypti mér hús á 18,1 milljón og sprengdi markaðinn á þeim tíma. Fasteignamatið á húsinu mínu hefur hækkað um 400% síðan þá,“ segir Gerður.

„Laxeldið fer af stað hér í kringum 2008 og smám saman hafa hlutirnir breyst. Fólkið hefur öðlast trú á samfélaginu, og er tilbúið til þess að kaupa hér húsnæði og setjast að. Við sjáum hús vera gerð upp, ný hús rísa, sólpalla smíðaða og götur malbikaðar, kannski erfitt að setja sig í þessi spor ef þú hefur aldrei upplifað annað en að þetta sé sjálfsagður hlutur.

Íbúar á Vestfjörðum tóku ekki ákvörðun um að fá til sín eldi og hafa ekkert endilega allir skoðun á því, en það eru allir sammála um það að það hefur svo sannarlega haft jákvæð áhrif á samfélögin hér fyrir vestan.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe