Neytendastofa hefur gert Líflandi ehf. óheimilt að selja hóffylliefni í umbúðum sem merktar eru íslenska fánanum. Þetta kemur fram á vef Neytendastofu.
Um er að ræða vörur frá hollenska fyrirtækinu ISI-PACK sem m.a. framleiðir hóffylliefni fyrir hesta. Um er að ræða erlendar vörur úr erlendu hráefni en Neytendastofa telur að notkun íslenska fánans á framhlið umbúðanna feli í sér villandi upplýsingar til neytenda um uppruna varanna, og gefi til kynna að þær séu íslenskar.
„Með hliðsjón af heildarmati á útliti umbúðanna komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að neytendum hafi verið veittar rangar upplýsingar um helstu einkenni vörunnar í þeim tilgangi að hafa áhrif á ákvörðun neytenda um að eiga viðskipti við verslunina og viðskiptahættirnir þ.a.l. óréttmætir,“ segir í tilkynningu Neytendastofu.