Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Ásgeiri Erlendssyni, upplýsingafulltrúa Gæslunnar, að olían hafi kostað tæplega 80 milljónir í Færeyjum og að gera megi ráð fyrir að verðmunurinn á milli Færeyja og Íslands hafi verið að minnsta kosti 30%. Stóran hluta af verðmuninum má skýra með að Gæslan þarf ekki að greiða virðisaukaskatt ef olían er keypt í Færeyjum.
Ásgeir sagði að fjárhagsstaða Gæslunnar sé slæm og eðli starfsemi hennar sé þannig að útilokað sé að einskorða olíutökur varðskipanna við Ísland. Í ljósi slæmrar fjárhagsstöðu hafi ekki annað þótt koma til greina en að taka olíu í ferðinni, sérstaklega í ljósi þess að tugum milljóna munar á verðinu þegar svona mikið magn er keypt.
Eldsneytiskostnaður Gæslunnar hefur hækkað úr 205 milljónum 2021 í um 661 milljón á þessu ári. Er þá átt við eldsneyti á skip, báta, þyrlur og flugvél.