Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning í gærkvöldi um ungmenni sem voru að lokka til sín dúfur og freista þess að handsama þær. Laganna verðir héldu á vettvang til að ræða við ungmennin en þá kom í ljós að þau voru með heimatilbúna gildru meðferðis og voru búin að handsama tvær dúfur og koma þeim fyrir í bakpoka sínum.
Frá þessu er greint í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en úrlausn málsins kemur þó ekki fram.
Flest útköll lögreglu tengdust einstaklingum í annarlegu ástandi og því miður voru sumir þeirra undir stýri. Einn slíkur var á rafmagnshlaupahjóli sem hann datt af og var hann fluttur á bráðamóttöku til aðhlynningar.
Þá fékk lögreglustöð 2, Hafnarfjörður og Garðabær, tilkynningu um innbrot í heimahús þar sem verðmætum var stolið. Málið er í rannsókn.