fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fréttir

Faðir áhrifavalds sem lést í flugslysinu í Þingvallavatni fór í hart – Krefst þess að fá gögn um meint misferli Haralds

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 30. ágúst 2023 11:30

Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd upplýsingamála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Samgöngustofa hafi ekki farið að lögum þegar föður áhrifavalds sem lést í flugslysi í Þingvallavatni á síðasta ári, var neitað um gögn sem varða rannsókn stofnunarinnar á málefnum flugmanns vélarinnar. 

Þann 3. febrúar á seinasta ári létu fjórir lífið í flugslysi þegar flugvélin TF-ABB hafnaði í Þingvallavatni og sökk til botns. Um borð voru þrír erlendir áhrifavaldar sem voru að taka myndir og myndbönd fyrir auglýsingaherferð fyrir belgíska fatamerkið Suspicious Antwerp sem og flugmaður vélarinnar, Haraldur Diego.

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu rannsóknarnefndar samgönguslysa varð slysið eftir að vélinni var flogið í um það bil sjö sekúndur í mjög lítilli hæð yfir vatninu áður en vélin hafnaði í því. Neyðarlínu barst símtal úr vélinni um þetta leytið. Símtalið varði aðeins í nokkrar sekúndur og ekki átti sér stað greinanleg samskipti þó svo að heyrst hafi að þarna væri aðili í neyð á ferðinni. Rakning á símtalinu leiddi í ljós að það barst úr farsíma eins farþegans. Engin merki bárust frá neyðarsendi vélarinnar við slysið og ekki vöknuðu áhyggjur af afdrifum vélarinnar fyrr en um klukkan 13:00 þegar hún skilaði sér ekki til baka á tilætluðum tíma. Flugslysaviðbúnaður var virkjaður hálftíma síðar og hófst umfangsmikil leit. Vélin fannst skömmu eftir 22 degi síðar á 47 metra dýpi, en það liðu svo tveir dagar til viðbótar áður en fjögur lík fundust á botni vatnsins á bilinu 56-130 metrum sunnan vélarinnar. Talið er að farþegar hafi ekki verið í sætisbeltum þegar slysið átti sér stað og flugmaður og farþegi í framsæti ekki með axlaólar. Pakkningar utan um björgunarvesti voru óopnaðar. Því var ekki slegið á föstu í skýrslunni hvað olli slysinu.

Faðir hins látna krefst upplýsinga

Farþegarnir um borð í vélinni var hjólabrettaáhrifavaldurinn Josh Neuman, belgíski áhrifavaldurinn Nicola Bellavia og Tim Ailings, hollenskur starfsmaður áðurnefnds fatamerkis. Leitaði faðir eins þeirra til Samgöngustofu eftir tilteknum upplýsingum í mars á síðasta ári. Vildi hann meðal annars fá upplýsingar um réttindi, leyfi og skráningar sem Haraldur hefði haft og skylt væri að hafa samkvæmt lögum um farþegaflug gegn greiðslu. Eins vildi hann fá í hendur öll gögn sem varða mál Haralds og fyrirtæki í hans eigu, sem Samgöngustofa hefði haft til skoðunar og eftir atvikum vísað til lögreglu, þá einkum vegna máls sem varðaði grun um að Haraldur hefði staðið að flugferðum utan þess ramma sem honum var heimilt.

Samgöngustofa svaraði því að flugvélin, TF-ABB, var skráð í loftfaraskrá. Fyrirliggjandi væru skrásetningarvottorð, lofthæfisvottorð og lofthæfisstaðfestingarvottorð. Skráður eigandi væri félag Haralds, Volcano Air, sem hafði ekki flugrekstrarleyfi eða flugrekandaskírteini gefið út af Samgöngustofu. Sökum þessa hafi félagið ekki sætt eftirliti stofnunarinnar. Haraldur hafði gild réttindi til að stýra vélinni, bæði atvinnuflugmannaskírteini, einhreyfilsáritum og þar að auki flugkennararéttindi.

Hins vegar neitaði Samgöngustofa að afhenda gögn um þau mál sem Samgöngustofa hefði haft til skoðunar varðandi Harald og rekstur hans. Samkvæmt lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, væri slíkt ekki heimilt sökum þagnarskyldu sem hvíli á starfsmönnum.

Lögregla felldi niður mál

Fréttablaðið greindi frá því þann 12. febrúar að málefni félagsins Volcano Air og eiganda þess, flugmannsins Haraldar Diego, voru til skoðunar hjá Samgöngustofu á árinu 2021 vegna ábendinga um meintan ólöglegan flugrekstur. Lögreglan tók svo við rannsókn málsins en felldi það síðar niður, ákvörðun sem ríkissaksóknari staðfesti. Hvorki Haraldur né félag hans hafði flugrekstrarleyfi og þar með heimild til að fljúga með greiðandi farþega. Höfðu Samgöngustofu borist athugasemdir frá flugrekendum um að starfsemi Haralds uppfyllti ekki skilyrði laga. Þeir sem kvörtuðu töldu flug Haraldar í raun leyfisskyldan atvinnurekstur sem væri í samkeppni við fyrirtæki sem þyrftu að uppfylla strangari skilyrði og eftirlit. Samgöngustofa staðfesti í svari til Fréttablaðsins að mál tengt flugvélinni sem fórst og eiganda hennar, hefði verið til meðferðar hjá stofnuninni.

„Var það meðal annars vegna ábendinga um meint flug viðkomandi í atvinnuskyni án þess að hafa til þess tilskilin leyfi,“ sagði í svarinu en Samgöngustofa staðfesti samtímis að flugvélin hefði ekki verið með flugrekstrarleyfi heldur hafi verið um einkaflugvél að ræða.

„Samgöngustofa tók málið til rannsóknar eftir hefðbundnum leiðum og ákvörðun var tekin í kjölfarið um að vísa því til lögreglu. Málinu lauk af hálfu lögreglunnar síðastliðið haust með niðurfellingu þess. Þá skal tekið fram að engin nýlega mál hafa borist stofnuninni vegna umrædds loftfars eða eiganda þess.“

Faðirinn reyndi aftur og sendi erindi til Samgöngustofu í október á seinasta ári þar sem hann vísaði til umfjöllunar Fréttablaðsins. Sagði faðirinn að svar Samgöngustofu til miðilsins mætti skilja sem svo að að þrátt fyrir að lögregla hefði hætt rannsókn hefði málinu verið haldið áfram af hálfu Samgöngustofu.

Vildi faðir því vita hvaðan Samgöngustofu hefði borist ábending um flugrekstur án tilskilinna leyfa, hvaða málsnúmerið málið hefði hlotið hjá lögreglu og eins hvort Samgöngustofa hefði beitt Harald eða félag hans stjórnsýsluviðurlögum vegna brota gegn lögum og reglum sem giltu um flugrekstur. Ef svo væri, þá vildi faðirinn fá allar ákvarðanir Samgöngustofu þar að lútandi.

Máttu ekki neita fortakslaust

Samgöngustofa svaraði í nóvember. Kom fram í svarinu að stofnunin viðhefði almennt eftirlit með loftförum þó þau væru ekki notuð í atvinnurekstri. Hefðbundnu eftirliti með umræddu loftfari hefði verið haldið áfram hjá stofnuninni eftir að lögregla hefði hætt rannsókn málsins. Áfram væri þó ekk hægt að veita umbeðin gögn sökum þagnarskyldu. Samgöngustofu væri ekki heimilt að afhenda gögn sem tengdust málum vegna eftirlits með ástandi vélarinnar sjálfrar. Haraldur hefði ekki verið beittur stjórnsýsluviðurlögum og ábendingar um flugrekstur án leyfa hefðu meðal annars borist nafnlaust.

Faðir hins látna var ósammála þessari túlkun Samgöngustofu á þagnarskylduákvæði. Af skýringum við ákvæðið í frumvarpi mætti ráða að ákvæðinu væri helst ætlað að vernda upplýsingar sem eru viðskiptalegs eðlis. Þar sem Haraldur hafði ekki flugrekstrarleyfi gæti varla verið um upplýsingar sem varði flugrekstur hans að ræða. Eins væri ljóst að upplýsingarnar ættu erindi við almenning þar sem þær geti varðað flug- og almannaöryggi.

Úrskurðarnefndin horfði tl þess að samkvæmt lögskýringargögnum þagnarskylduákvæðisins bæri Samgöngustofu að „meta í hverju tilviki hvort hagsmunir almenning af aðgangi að slíkum upplýsingum vegi þyngra en hagsmunir viðkomandi fyrirtækis eða lögaðila af því að þær fari leynt. Eðlilegt þykir að þetta mat fari fram við meðferð beiðni um aðgang að upplýsingum í vörslum Samgöngustofu í stað þess að unnt sé að synja henni fortakslaust.“

Ljóst væri að Samgöngustofa hafi ekki framkvæmt slíkt mat og þar með hafi ekki verið leyst úr beiðni föður hins látna á réttum lagagrundvelli. Ákvörðun Samgöngustofu væri haldin verulegum efnislegum annmörkum og því ekki hjá því komist að erindi föðurins verði þar tekið upp á nýjan leik og leyst úr því í samræmi við upplýsingalög.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Rússnesk skip og kafbátar horfnir úr sýrlenskri flotastöð

Rússnesk skip og kafbátar horfnir úr sýrlenskri flotastöð
Fréttir
Í gær

Nettó og Bónus í jólabókaverðstríði — mikill verðmunur á spilum, bókum og Legó

Nettó og Bónus í jólabókaverðstríði — mikill verðmunur á spilum, bókum og Legó
Fréttir
Í gær

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands
Fréttir
Í gær

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óprúttnir netglæpamenn herja á ferðaþjónustufyrirtæki – „Þeir kaupa þjónustu með fölskum kortanúmerum“

Óprúttnir netglæpamenn herja á ferðaþjónustufyrirtæki – „Þeir kaupa þjónustu með fölskum kortanúmerum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gamla góða Cocoa Puffs aftur á leið í verslanir

Gamla góða Cocoa Puffs aftur á leið í verslanir