Mikið hefur verið rætt og ritað um ferðaþjónustuna hérlendis og á meðal gagnrýni hvað hana varðar er að skilti, leiðbeiningar, nöfn veitingastaða, matseðla og svo framvegis séu alfarið á erlendu tungumáli, oftast ensku, eða hampi enskunni ofar og íslenskan sett í annað sæti.
Á meðal staða sem ákveða að hampa íslenskunni og hvetja þannig erlenda viðskiptavini til a spreyta sig á tungumálinu er kaffibrennslan og kaffihúsið Valeria á Grundarfirði.
„Yfirlýsing. Í ljósi frétta undanfarið vill Valería árétta að hér fara öll viðskipti fram á íslensku. Orðabækur fyrir kúnna sem vilja spreyta sig liggja víða um kaffihúsið, það hefur komið í ljós að skaftfellski einhljóðaframburðurinn sem var talinn á undanhaldi lifir góðu lífi meðal erlendra ferðamanna,“ segir í færslu á Facebook og meðfylgjandi er mynd af helstu orðum/setningum til að panta sér kaffi.
Á meðal þeirra sem hæla framtakinu er Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. „Skemmtilegt. Ég einmitt geri í því að læra orð og orð á ferðum mínum.“
Hjónin Marta Magnúsdóttir og Jan Van Haas opnuðu kaffihúsið Valeria í júní í fyrra. Marta er uppalinn Grundfirðingur og Jan er frá Kólumbíu, foreldrar hans voru kaffibændur og ólst hann upp á litlum sveitabæ þar sem fjölskyldan ræktaði kaffiber. Valeria flytur inn kaffibaunir beint frá bændum í Kólumbíu, og senda hjónin þær víðar á landinu í aðrar verslanir eða beint til viðskiptavina.