Handtökur voru framkvæmdar og stolin rafhlaupahjól gerð upptæk á heimili konu miðsvæðis í Reykjavík í miðvikudagskvöld. Á aðfaranótt þriðjudags hafði konan og maður einn farið í sérkennilegan þjófnaðarleiðangur um Seljahverfi þar sem blómum og blómapottum var stolið fyrir utan heimili. Athæfi parsins náðist á eftirlitsmyndavélar heima hjá Árnýju Benediktsdóttur, íbúa við Gljúfrasel. Einnig virtist parið vera að leita að lyklum í blómapottum. DV ræddi við hana á miðvikudag.
„Það er stór garður baka til hjá mér en þau fóru ekki þangað, þetta var allt að framanverðu,“ sagði Árný, og ennfremur: „Það sem ég sé á upptökunni er að þau byrja á að leita að lykli undir potti. Ég er með tvær mjög stórar hortensíur fyrir framan dyrnar og það fyrsta sem ég sá þegar ég opna dyrnar var að það var allt út í mold í kringum þær. Það var búið að slíta einhver blóm af annarri hortensíunni, en síðan fara þau í þennan bolla þar sem er stórt blómaker og rífa allt upp með rótum sem í þeim potti er. Það voru fyrst og fremst stór og falleg flauelsblóm. Síðan kemur hann þarna aftur og tekur körfu sem er við innganginn og lyftir upp úr henni blómi. Ég hélt að þar væri hann líka að leita að lykli. Síðan tekur hann bara körfuna og silkiblómið, hann kom aftur til að taka þetta, ég var með fleiri silkiblóm í pottum og þau voru tekin. Þau tóku með sér það sem hægt var að taka með sér, annað var of þungt.“
Árný tilkynnti málið til lögreglu á miðvikudag og sýndi lögreglukonu gögn úr eftirlitsmyndavél sinni. DV hafði samband við Árnýju í dag og aðspurð sagðist hún ekkert hafa heyrt frá lögreglu um rannsókn málsins. DV hefur hins vegar fengið upplýsingar úr annarri átt sem tengjast parinu.
Samkvæmt heimildum DV sá vegfarandi menn fara með þrjú rafhjól heim til konunnar, sem um getur hér að ofan, en hún býr í miðborginni. Viðkomandi hringdi í lögreglu sem kom á vettvang og gerði ótilgreint magn af rafhjólum upptæk inni á heimili konunnar. Tveir karlmenn voru handteknir á vettvangi og voru þeir handjárnaðir.
Sjónarvottur sá konuna fara með mönnunum í lögreglubílnum en hún var ekki handjárnuð og óljóst hvort hún var handtekin. Hins vegar liggur fyrir að öllum var sleppt daginn eftir.
Á Facebook má sá ummæli frá fólki sem endurheimti rafhjól sonar síns heim til konunnar og þakkar það Bjartmar Leóssyni, hjólahvíslaranum, fyrir milligöngu sína í málinu. Bjartmar ræddi stuttlega við DV um einn anga málsins, sem er eldhætta af þýfi sem þessu.
Bjartmar bendir á að fólk sem stelur rafhjólum hlaði þau oft með vitlausum hleðsluækjum, þá sé það í raun að búa til sprengjur. „Þarna fer saman fólk í annarlegu ástandi og þýfi sem getur verið eldfimt. Ég bendi til dæmis á bruna sem varð í rauða húsinu bak við JL-húsið og í Blesugróf fyrr á árinu og eru tengdir við þýfi af þessu tagi. Það varð líka slíkur bruni í Katrínartúni,“ segir Bjarmar.
Fyrir liggur að það kviknaði í tveggja hæða timburhúsi í Blesugróf í lok júní út frá rafmagnshjóli. Bjartmar upplýsir að um þýfi hafi verið að ræða, sem og í hinum tveimur tilvikunum.
„Lögreglan hefur dregið lappirnar í þessum málum en þetta eru fjölbýlishús, þarna getur myndast mikil eldhætta eins og dæmin sanna, og ég held að slökkviliðið þyrfti að koma inn í þessa umræðu. Lögreglan veit hvar þetta er og núna verður hún að fara að skófla út þessu þýfi áður en voði hlýst af. Þrisvar sinnum hefur orðið bruni sem líklega stafar af því að þjófar eru að hlaða rafhjól með vitlausum hleðslutækjum.“