Kona var í dag sakfelld í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að hafa flutt til landsins tæplega 100 grömm af kókaíni með styrkleika 83%, ætluðu til söludreifingar hér á landi.
Konan flutti efnin í flugi frá Gdansk í Póllandi til Keflavíkurflugvallar, og voru þau falin í farangurstösku sem konan hafði meðferðis.
Konan játaði brot sitt skýlaust fyrir dómi. Hún er með hreint sakavottorð og ekki er talið að hún hafi verið eigandi fíkniefnanna né tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þeirra til Íslands.
Var konan dæmd í tveggja og hálfsmánaðar fangelsi. Frá þeirri refsingu dregst gæsluvarðhald konunnar en hún hefur setið inni síðan atvikið átti sér stað, þ.e. frá 13. júní síðastliðnum. Er því ljóst að hún á ekki langan tíma eftir ósetinn í fangelsi vegna málsins.