Stofnandi Bláa hersins, sem eru ein þeirra samtaka sem vinna að hreinsun strandlengjunnar við Ísland, segir samtökin hafa misst 5 milljóna króna styrk frá útgerðarfélaginu Brim, vegna rógsherferðar hjá einum af sjálfboðaliðum Veraldaravina, Kristjáns Hreinssonar.
„Blái herinn er ekki lengur styrktur af Brim, þökk sé Veraldarvininum Kristjáni Hreinssyni sem hrakti þá frá því að vera einn að aðalstyrktaraðilum okkar með níðskrifum sínum,“ segir Tómas í samtali við DV. Honum blöskrar ummæli sem finna má á Facebook-síðu Veraldarvina og telur að þar séu hafðar uppi rangfærslur. Ljóst er að rígur hefur verið á milli þessara tveggja samtaka sem bæði vinna að hreinsun strandlengjunnar. Eftirfarandi ummæli ónefnds Veraldarvins fóru fyrir brjóstið á Tómasi:
„Glöggt er gests augað ! Norðmenn koma aftur að ströndum Íslands og nú til þess að hjálpa til við hreinsun stranda eyjunnar fögru. Samtökin Hold Norge Rent halda úti nokkrum bátum til hreinsunar strandlengju Noregs auk þess sem fjöldi sjálfboðaliða kemur að þeirri hreinsun á hverju ári. Allt þetta starf er greitt af Norska ríkinu og fyrirtækjum í sjávarútvegi. Hér á Íslandi er hreinsun strandlengjunnar að mestu leyti greidd af þeim sem standa fyrir hreinsunum og litlum rekstrarstyrkjum frá umhverfisráðuneyti sem skila sér bæði seint og illa. Útgerðin greiðir ekkert til þessa verkefnis að undanskildum fyrirtækjunum Síldarvinnvslunni sem veitti Veraldarvinum styrk að upphæð kr. 5.000.000 í fyrra auk þess sem Brim styður við Bláa herinn við hreinsanir á Reykjanesi. Við skorum á samtök fyrirtækja í sjávarútvegi að girða sig í brók og kosta hreinsun á því rusli sem þeirra félagsmenn hafa hent eða misstí hafið síðustu áratugi. Við Worldwide Friends, Veraldarvinir erum klár í að sjá um hreinsunina. Við þökkum vinum okkar í Noregi fyrir heimsóknina og hlökkum til frekara samstarfs. “
Þessi svarar Tómas á síðunni: „Þú ættir að skammast þín sem ert í forsvari fyrir þessi samtök, þú ert ekki að tala hreinum tungum hér.“
Tómas segir við DV að Kristján Hreinsson og Veraldarvinir gorti sig af verkefni sem þeir hafi vélað til sín frá Bláa hernum með manneskju sem einu sinni vann hjá Bláa hernum. „Svona mætti lengi telja,“ segir Tómas og sakar Veraldarvini um að vinna gegn sér með óheiðarlegum hætti:
„Ég er bara búinn að fá mig fullsaddan á því hvernig þessi samtök og þau sem þar stjórna hafa seilst í siðleysi fram með falsi og prettum gagnvart mér og mínum verkefnum og reynt allt til þess að knésetja mig undanfarin ár.“
Þess má geta að fyrir stuttu hlaut Tómas sjálfbærniverðlaun Sameinuðu þjóðanna fyrir verkefni sem hann tók þátt í að búa til innan samtakanna Let´s Do It World. Verkefnið heitir World Cleanup Day og snýst um að fólk hvaðanæva úr heiminum hreinsi umhverfi sitt á tilteknum degi, sem ber upp á 16. september í ár. Víkurfréttir greindu frá.
Það sem Tómas kallar rógsherferð Veraldarvina eru mjög hvöss og endurtekin skrif skáldsins og Veraldarvinarins Kristjáns Hreinssonar, sem gengið hefur hart fram gegn Bláa hernum og Tómasi undanfarin ár. Sú gagnrýni endurómar í svörum Kristjáns er DV bar undir hann áskanir Tómasar.
Við gefum Kristjáni orðið:
„Tómas Knútsson má svo sem segja hvað sem er um þau orð sem ég hef haft um hann og hinn svokallaða Bláa her. Hið sanna er að það hefur aldrei verið til neinn blár her, einungis einn blár gasprandi hermaður sem þegið hefur styrki til að greiða húsaleigu yfir bíla og leikföng Tómasar Knútssonar. Þetta hef ég fengið staðfest með því að skoða þá örfáu ársreikninga sem sýna svokölluð umsvif hins svokallaða Blá hers. Styrkir fara í greiðslu húsaleigu yfir hluti sem eru skráð eign Tómasar sjálfs, þótt reyndar hafi sumt af þessu dóti verið gefið Bláa hernum.
Ég hef aldrei skrifað níð um Bláa herinn. Ég hef sagt sannleikann. Tómas hefur ekki þurft neina aðstoð við að ljúga – það kann hann vel. Heimasíða Bláa hersins er full af einkennilegri skreytni. Tómas hefur fengið viðurkenningar fyrir verk sem hann hefur aldrei unnið. Á heimasíðu Bláa hersins er hvert viðvik tíundað sem vinnuframlag, þar eru sömu tonnin talin nokkrum sinnum – ef grannt er skoðað. Þar má m.a. sjá að talað er um að Blái herinn hafi hreinsað grindverk Isavia. Hið merkilega er að eigandi Bláa hersins hefur verið í fullu starfi hjá Isavia á meðan hann hefur verið í einhverjum þykjustuleik sem hann hefur kallað fjöruhreinsun og hreinsunarstarf. Að hreinsa plast úr grindverki Isavia er þá kannski unnið sem sjálfboðaliðastarf.
Annað er það að blái hermaðurinn segist hafa tekið þátt í hreinsun víða um land. Hann hefur einn mætt á örfáa staði og hefur þá slegið því þannig upp í fjölmiðlum að um Bláan her hafi verið að ræða. Þetta hef ég réttilega bent á og kallað að skreyta sig stolnum fjöðrum.
Blái hermaðurinn hefur tekið þátt í að hreinsa afmarkað svæði á Reykjanesi og hefur fengið himinháa styrki til allra viðvika. Samstarfsaðilar snúa að sjálfsögðu ósjálfrátt baki við manni sem gerir fátt annað en hirða styrki til að greiða húsaleigu yfir rándýr leikföng.
Tómas má halda því fram að ég sem sjálfboðaliði hjá Veraldarvinum hafi gortað af unnum störfum. Ef ég hef gert það þá er það gort á rökum reist. Veraldarvinir eru samtök sem virkilega hafa staðið sig vel og skarað fram úr við strandhreinsun á Íslandi. Þau samtök hafa aldrei hallmælt Bláa hernum og yfir leitt ekki hallmælt nokkrum manni. Ef einhver samtök hafa snúið baki við Tómasi Knútssyni þá er það eflaust einfaldlega vegna þess að hann hefur ekki staðið sig í stykkinu.
Ég hef ekki þurft og mig hefur aldrei langað að níða skóinn af hinum svokallaða Bláa her, enda hef ég aldrei gert það, ég hef einvörðungu sagt sannleikann. Blái hermaðurinn hefur aldrei getað sýnt fram á að ég hafi farið með rangt mál. Lygar Tómasar Knútssonar tilheyra lögmáli sem stundum er kallað karmalögmálið.
Öll bestu orðin brúka má
um böl og sitthvað fleira,
en sannleikurinn særir þá
sem síst hann vilja heyra.“