Þann 31. ágúst næskomandi verður fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjaness í máli manns sem héraðssaksóknari hefur ákært fyrir nauðgun, sifjaspell og stórfellt brot í nánu sambandi, auk fleiri brota. Maðurinn situr í gæsluvarðhaldi í Fangelsinu Hólmsheiði. Hann er einnig ákærður fyrir vörslu af gífurlega miklu barnaníðsefni og auk þess fyrir að hafa útbúið slíkt efni af kynferðisofbeldi sínu gegn dóttur sinni.
Maðurinn er sakaður um að hafa brotið reglulega gegn stúlkunni yfir hálfs árs tímabil, frá 25. júlí 2022 til 13. janúar 2023. Er hann sagður hafa margsinnis haft samræði við barnið, meðal annars endaþarmsmök. Meint ofbeldi átti sér stað í bílum, íbúðum sem hinn ákærði var með á leigu og á vinnustað hans. „Ákærði nýtti sér freklega yfirburði sína sem faðir og að barnið var eitt með honum fjarri öðrum,“ segir meðal annars í ákærunni.
Einnig er maðurinn ákærður fyrir að hafa framleitt 27 ljósmyndir og 9 myndskeið sem sýna kynferðislega misnotkun á barninu.
Maðurinn er einnig sakaður um vörslu á gífurlegu magni af barnaníðsefni, sem fyrr segir, og er það orðað svo í ákæru:
„Kynferðisbrot, með því að hafa um nokkurt skeið og fram til þriðjudagsins 18. apríl 2023, haft í vörslum sínum, Lenova IdeaPad fartölvu (munur […]), Lenovo Legion fartölvu (munur […]), Segate flakkara (munur […]), Samsung M3 flakkara (munur […]) samtals 37.742 ljósmyndir og 634 kvikmyndir sem sýna börn á kynferðislegan hátt og á Samsung Galaxy S23+ farsíma (munur […]) og Samsung Galaxy S8+ farsíma (munur […]) samtals 41 ljósmynd sem sýna börn á kynferðislegan hátt.“
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Fyrir hönd stúlkunnar er gerð krafa um miskabætur að fjárhæð sjö millljónir króna.