Þann 19. júlí síðastliðinn sýknaði Héraðsdómur Vesturlands mann í sérstæðu og óvenjulegu kynferðisbrotamáli sem DV hefur áður fjallað um.
Maðurinn var þá sakaður um að hvetja unnustu sína til að fremja kynferðisbrot gegn barnungum syni hennar og sýna honum það í farsíma. Brotið sem maðurinn átti að hafa hvatt til átti sér aldrei stað. Ákærutextinn hljóðaði svo orðrétt með úrfellingum til persónuverndar:
„Ákærði er sakaður um tilraun til hlutdeildar í kynferðisbroti gegn barni, með því að hafa að kvöldi föstudagsins ……… hvatt …….. til að hafa önnur kynferðismök en samræði við son hennar, …………. með því að biðja hana um að fróa, nudda og strjúka getnaðarlim …….. og sýna ákærða það í gegnum farsíma hennar.“
Málið var byggt á mjög óvenjulegum gögnum. Barnsfaðir unnustu hins ákærða hafði hakkað sig inn í síma hennar og komist þar yfir mjög umfangsmikið spjall milli parsins. Eitthvað af því spjalli gaf til kynna barnagirnd en ákært var á grundvelli eftirfarandi textabrota:
Ákærði: „Aðuren u froar þer myndiru gera eitt fyrir mig“
[A…]: „?“
Ákærði: „myndi gera eitthva í staðin“ „snerta hann og strjuka syna mer það“.
Maðurinn tilkynnti um skjáskotin bæði til lögreglu og barnaverndar. Sagðist hann óttast að börn hans væru í hættu.
Maðurinn neitaði sök fyrir dómi og unnusta hans, sem hafði átt í hlut og kölluð var til vitnis, studdi framburð hans. Sögðu þau að skjáskotin sem barnsfaðirinn tefldi fram væru slitin úr samhengi og væru aðeins brotabrot af öllu spjalli þeirra. Einnig væri ekki hægt að útiloka að barnsfaðirinn hefði átt við skilaboðin. Rannsóknarlögreglumenn sem kallaðir voru til vitnis gátu ekki útilokað að vantaði inn í samfellu skilaboðanna né að möguleiki hefði verið fyrir barnsfaðirinn að eiga við þau.
Dómari segir að sumt af þeim skilaboðum sem lögð voru fram sem gögn í málinu lýsi ógeðfelldum hugarórum. Í texta dómsins segir: „
„Þau samskipti ákærða og [A…] sem lögð hafa verið fram gögn um í málinu eru langflest af kynferðislegum toga, sum hver vekja sem slík ekki sérstaka athygli ef þannig má að orði komast á meðan önnur verða að teljast afar ógeðfelld og lýsa á stundum afbrigðilegum kenndum að mati dómsins. Í þeim efnum verður þó enginn dómur felldur á enda það ekki sakarefnið og sitt sýnist ábyggilega hverjum í þeim efnum, a.m.k. um margt en síður annað.“
Dómari telur ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að hinn ákærði hafi með ummælum sínum sem lögð eru fram í skjáskotum verið að biðja konuna um að misnota drenginn. Þá þurfi einnig að hafa í huga að skilyrði þess að refsað verði fyrir tilraun til að fremja refsiverða háttsemi sé að ásetningur þess sem tilraunina gerir standi til þess að tilraunin muni bera árangur, að brotið verði fullframið. Ekki sé sannað að svo hafi verið í þessu tilviki. Þá skiptir einnig máli að hinn ákærði beitti engum fortölum við meinta tilraun sína til hlutdeildar í ólöglegri háttsemi, háttsemi sem konan segir að aldrei hafi komið til greina að framkvæma.
Maðurinn er því sýknaður af ákæru í málinu. Dóminn má lesa hér.