fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fréttir

Afgönsk kona kyrrsett ásamt barni sínu á Íslandi – Vilja komast burt en tölvan segir nei

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 13. júlí 2023 10:27

Eva Hauksdóttir vekur athygli á slæmri stöðu afganskrar konu og barns hennar sem vilja komast frá Íslandi

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Afgönsk kona og barn hennar, sem vilja komast burt frá Íslandi, geta það ekki því íslenska ríkið hefur vegabréf þeirra í fórum sínum. Mæðginin hafi fallið milli skips og bryggju í kerfinu, fái engin svör og verði hent út á guð og gaddinn í dag. Þetta kemur fram í aðsendri grein Evu Hauksdóttur, lögmanns á vef Vísi þar sem hún vekur athygli á stöðu mæðginanna sem hún telur að íslenska ríkið sé að brjóta gróflega á. „Þau vilja komast burt og njóta ekki lengur réttinda hælisleitenda en mega samt ekki yfirgefa landið. Þau sjá fram á að lenda á götunni í dag, þann 13. júlí 2023,“ skrifar Eva sem er fyrrum talsmaður konunnar.

Gáfust upp eftir fjögurra mánaða bið

Í greininni kemur fram að móðirin og barn hennar, sem er á grunnskólaaldri, hafi flúið Afganistan í byrjun árs og komið til Íslands í gegnum Ítalíu. Þau hafi sótt um vernd hérlendis og skilað inn vegabréfum sínum og öllum gögnum en þá hafi löng bið tekið við.

„Afgreiðslutími Útlendingastofnunar er langur í huga barns sem á ekki heimili, nýtur ekki skólagöngu, á ekki kost á tómstundastarfi og þekkir engan í framandi landi. Þegar ekkert var að frétta af afgreiðslu umsóknarinnar fjórum mánuðum eftir komuna til landsins, ákvað móðirin að snúa aftur til Ítalíu en ítalska ríkið hefur viðurkennt ábyrgð sína á umsókn hennar. Umsókn um vernd á Íslandi dró hún til baka þann 12. júní sl. Hún hafði þá beðið eftir tíma til undirrita yfirlýsingu um afturköllun umsóknar, frá því að hún tilkynnti um þá fyrirætlan sína þann 23. maí. Konunni var sagt að þeim yrði fylgt úr landi fljótlega og að haft yrði samband við hana vegna þess, líklega innan viku,“ skrifar Eva.

Illu heilli lýsti Ítalía hins vegar yfir sex mánaða neyðarástandi vegna komu flóttamanna til landsins í apríl síðastliðnum og neitar landið að taka við fólki á meðan. Stoðdeild ríkislögreglustjóra, sem átti að fylgja konunni og barni hennar úr landi, getur því ekki sent þau til Ítalíu á meðan enginn vill taka við þeim.

Réttindalaus og fá engin svör

Eva segir að þrjár vikur hafi liðið frá því að mæðginin drógu umsókn sína um vernd tilbaka án þess að nokkur hafi haft samband við þau. Móðirin hafi þá haft samband við lögreglu og spurt hvenær hún mætti vænta þess að vera send úr landi og bent á að ef hún fengi vegabréf sitt og barnsins gæti hún komið sér burt sjálf.

„Lögreglan telur sig ekki bera ábyrgð á því að upplýsa hana um stöðuna og segir henni að tala við Útlendingastofnun. Útlendingastofnun segir konunni að hún sé ekki lengur inni í kerfinu og að stofnunin beri enga ábyrgð á henni lengur. Konan ræðir svo við ráðgjafa á vegum Vinnumálastofnunar, sem segir henni að hún muni missa gistipláss og framfærslufé þann 13. júlí, “ skrifar Eva.

Konan hafi þá haft samband við hana, sem fyrrum talsmann hennar, og óskað eftir ráðum.

„Fyrrum talsmaður hefur samband við stoðdeild, sem hefur enga hugmynd um hvenær hægt verði að koma fólkinu úr landi. Talsmaður krefst þess að Útlendingastofnun komi málinu í farveg og sjái til þess að konunni verði veittar upplýsingar um framhaldið, að öðrum kosti verði fjölmiðlar látnir vita af málinu. Þann 11. júlí vísar Útlendingastofnun á stoðdeild og neyðarþjónustu sveitarfélaganna, sem bera heldur ekki ábyrgð á kyrrsettum hælisleitendum. Tölvupósti með spurningu um það hver beri ábyrgð á því að upplýsa konuna um möguleika í stöðunni er ekki svarað. Laust eftir hádegi þann 12. júlí 2023, kemur starfsmaður Vinnumálastofnunar til konunnar og tilkynnir henni að hún verði borin út næsta dag, fari hún ekki af sjálfsdáðum,“ skrifar Eva.

Tölvupóstum ekki svarað og engin hringir

Hún lýsir svo því hvernig hún hafi reynt að fá samband við einhvern talsmann kerfisins án árangurs.

„Fyrrum talsmaður hringir í Útlendingastofnun og biður um samband við lögfræðisvið. Svarið er að það sé „ekki hægt“ að fá að tala við lögfræðinga stofnunarinnar en það sé hægt að senda tölvupóst. Talsmaður bendir á að tölvupósti hafi ekki verið svarað, að kona með barn sé kyrrsett á landinu og viti ekki betur en að hún sé að missa húsaskjól og framfærslu næsta dag, hún þurfi að fá upplýsingar um það hvernig farið verði með mál hennar og það strax. Starfsmaður Útlendingastofnunar segist ekki hafa neinar upplýsingar um málið. Talsmaður hringir í Vinnumálastofnun. Þar er enginn við sem getur svarað en starfsmaður býðst til að koma skilaboðum til þeirra sem svörin hafi, um að símtals sé óskað. Enginn hringir.“

Eva bendir á að íslenska ríkið noti Dyflinnarreglugerðina til að „ losna við fólk sem Útlendingastofnun vill ekki sinna“ en að reglugerðin sé ekki hugsuð stjórnvöldum til hagræðingar heldur eigin hún að tryggja fólki á flótta lágmarks öryggi.

Ábyrgð ríkisins

„Reglugerðin á að koma í veg fyrir að fólk sem leitar verndar í Evrópu standi uppi réttindalaust. Hún á að tryggja að fólk sem á rétt á vernd fái vernd og að þeim sem ekki eiga rétt á vernd verði vísað til síns heima. Reglugerðin felur ekki í sér heimild til að svipta fólk bæði vegabréfi og mannréttindum án málsmeðferðar eða einu sinni skýringa.“

Eva segir að íslenska ríkinu beri skylda til þess að tryggja að mannréttindi fólks, sem  sem statt er innan lögsögu ríkisins séu virt, jafnvel þegar upp kemur staða sem lög og verkferlar gera ekki ráð fyrir.

„Hættan á því að ríkisvaldið bregðist skyldum sínum er mest gagnvart fólki sem er ekki í neinni aðstöðu til að sækja rétt sinn. Þegar það gerist reynir á vilja fjölmiðla og almennings í landinu til að veita valdinu aðhald. Ætlum við, þú og ég, að sætta okkur við að fólk sem má hvorki fara né vera fái engar upplýsingar um fyrirætlan ríkisins, aðrar en þær að frá og með tilteknum degi geti það étið það sem úti frýs? Eða ætlum við að gera eitthvað í því?“ skrifar Eva.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Sérfræðingar telja að enn sé tími til að stökkva á Bitcoin-vagninn

Sérfræðingar telja að enn sé tími til að stökkva á Bitcoin-vagninn
Fréttir
Í gær

Gamla góða Cocoa Puffs aftur á leið í verslanir

Gamla góða Cocoa Puffs aftur á leið í verslanir
Fréttir
Í gær

Var með mikið magn af OxyContin innvortis

Var með mikið magn af OxyContin innvortis
Fréttir
Í gær

Drápshundarnir í Langholtshverfi hafa drepið ketti og ráðist á fólk – „Hundarnir endurspegla eigendurna“

Drápshundarnir í Langholtshverfi hafa drepið ketti og ráðist á fólk – „Hundarnir endurspegla eigendurna“
Fréttir
Í gær

Mangione sagður hafa „misst vitið“ eftir sársaukafulla aðgerð

Mangione sagður hafa „misst vitið“ eftir sársaukafulla aðgerð