Rússar eru mjög ósáttir og hafa gagnrýnt þess ákvörðun harðlega en gleyma hins vegar að nefna að þeir hafa sjálfir notað klasasprengjur í stríðinu við Úkraínu. Þá hafa mannúðarsamtök áhyggjur af þessu því klasasprengjur springa ekki alltaf þegar þeim er ætlað að springa og geta legið árum og áratugum saman á og í jörðinni. Mörg dæmi eru um að óbreyttir borgarar, og þá oft börn, bíði bana eða verði fyrir alvarlegu líkamstjóni eftir að hafa komist í snertingu við slíkar sprengjur.
Klasasprengjur er vopn sem er hægt að kasta úr flugvél eða skjóta með flugskeyti. Um einhverskonar hylki er að ræða sem inniheldur mikið magn af litlum sprengjum. Hylkið opnast í loftinu og sprengjurnar, sem geta verið mörg hundruð í hverju hylki, dreifast á svæðið fyrir neðan.
Anders Puck Nielsen, hernaðarsérfræðingur hjá danska varnarmálaskólanum, sagði í samtali við Jótlandspóstinn að ein ákveðin ástæða sé fyrir að Úkraínumenn hafa þörf fyrir þetta umdeilda vopn. „Það leysir fyrst og fremst vanda Vesturlanda með að sjá Úkraínu fyrir nægilega miklum af skotfærum. Klasasprengjur eru áhrifaríkar og þetta stríð er orðið að stórskotaliðsstríði. Það er einfaldlega hægt að ná meiri árangri með færri sprengjum ef maður hefur klasasprengjur,“ sagði hann.
Hann sagði að klasasprengjur geti skipt miklu máli á vígvellinum. Aðalatriðið í þessu stríði sé að vera með yfirburði varðandi stórskotalið. Það sé stórt vandamál fyrir Úkraínu ef ekki sé hægt að sjá hernum fyrir nægum skotfærum fyrir stórskotaliðið til að halda aftur af Rússum og jafnvel vera með yfirburði yfir þá. Það sé nauðsynlegt til að sigra í stríðinu.