Þeir eru líklega nokkrir sem eru vonsviknir vegna nýlegrar fréttar hjá ekvadorska miðlinum Metro, en þar var greint frá því að stjórnvöld á Íslandi hefðu veitt miðlinum þær upplýsingar að ekkert væri hæft í þrálátum orðróm sem hefur gengið þar í landi um nokkra hríð.
Orðrómurinn hélt því fram að íslenska ríkisstjórnin hefði tekið upp á því að erlendum karlmönnum yrði borgað fyrir að koma til landsins og giftast þar íslenskri konu og geta henni börn. Var þetta sagður liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að auka fæðingartíðni.
Metro segir: „Íslensk stjórnvöld hafa skýrt það út við Metro Ekvador að upplýsingar um aðgerðir sem þau eru sögð hafa ráðist í til að bæta fæðingartíðni, séu rangar. Þrátt fyrir að þetta séu upplýsingar sem skrifað hefur verið um í mörgum miðlum víða um heiminn í rúman áratug, viljum við biðjast afsökunar á að hafa dreift fölskum upplýsingum um úrræði sem aldrei voru raunveruleg.“
Vissulega er hér um þrálátan orðróm að ræða sem virðist ekki ætla að takast að kveða niður. Vefurinn Snopes, sem sérhæfir sig í að rannsaka sannleiksgildi frétta, tók þetta fyrir árið 2016, og rakti orðróminn þá til fréttamiðla í Afríku. Orðrómurinn hefur þó tekið breytingum í gegnum tíðina því árið 2016 áttu Íslendingar að glíma við karlmannsskort og hefðu stjórnvöld því ákveðið að bjóða innflytjendum um 600 þúsund króna greiðslu á mánuði ef þeir væru tilbúnir að taka sér íslenska konu. Var orðrómurinn rakinn til bloggsíðu og grein var frá því að í kjölfar bloggfærslunnar hafi vinabeiðnum rignt yfir íslenskar konur frá erlendum vonbiðlum.
Danska sendiráðið í Egyptalandi fékk að finna fyrir fyrirspurnum vegna málsins og sá sig knúið til að kveða orðróminn í kút í færslu á Facebook.
Seinna breyttist orðrómurinn á þann veg að nú áttu íslensk stjórnvöld að ábyrgjast vinnu fyrir karlmenn sem hingað kæmu til að giftast íslenskum konum. Nú virðist orðrómurinn aftur hafa tekið breytingum og mun nú ætlunin vera að fjölga hér fæðingum, enda gætu sumir kokgleypt slíkar fullyrðingar í ljósi þess að dregið hefur úr fæðingum hér á landi undanfarin misseri.
Eins og sjá má er þó enn verið að reyna að sannfæra útlendinga um að hér bíði þeim einmana konur sem séu jafnvel sjálfar tilbúnir að borga þeim ef þeir aðeins segja já.