Gæsluvarðhaldshúrskurður yfir manni sem situr í haldi lögreglu, grunaður um að hafa orðið manni á bana á skemmtistaðnum LÚX í Austurstræti síðustu föstudagsnótt, rennur út á morgun. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á Miðlægri rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir of snemmt að segja til um hvort áframhaldandi gæsluvarðhalds verði krafist yfir manninum á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
„Við eigum von á bráðabirgðaniðurstöðum krufningar í dag og þá getum við áttað okkur betur á stöðunni,“ segir Grímur í samtali við DV. Aðspurður um gang rannsóknarinnar segir Grímur: „Staðan skýrist með hverjum deginum og hverri yfirheyrslunni. En það er ekki eitthvað sem við getum tjáð okkur meira um fyrr en niðurstaða liggur fyrir.“
Lögregla var kölluð til á Lúx á fjórða tímanum á föstudagsnótt en þá lá maður meðvitundarlaus á staðnum eftir átök við annan mann sem var flúinn af vettvangi en fannst stuttu síðar í nágrenni staðarins. Árásarþolinn lést á laugardaginn á gjörgæsludeild Landspítalans. Hann var á þrítugsaldri.
Samkvæmt heimildum DV er árásarmaðurinn 28 ára gamall og hefur æft hnefaleika. Vitni telja að eitt högg í hnakka árásarþolans hafi valdið látinu. Þetta hefur lögregla ekki staðfest en þó gefið upp að ekki sé talið að vopnum hafi verið beitt í árásinni. Ekki er talið líklegt að tengsl hafi verið á milli mannanna.