Hugmyndir um að fluglest frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur eru aftur komnar á skrið en verkefnið hefur legið í dvala um nokkurra ára skeið. Nú er horft til þess að lestin stoppi í Smáralind eða Kringlunni sem yrði mun ódýrari lausn en fyrri hugmyndir um að endastöðin yrði BSÍ. Þetta kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins í dag.
Í umfjölluninni kemur fram að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, hafi boðað til ráðstefnu um verkefnið í september næstkomandi. Áhugi sé hjá nokkrum sendiráðum hérlendis að tengja lestar- og lestarþróunarfyrirtæki inn í þá vinnu hérlendis.
Áætlanir hafa gert ráð fyrir því að lestin yrði ofanjarðar frá Keflavík og að Straumsvík en þaðan yrðu grafin 15-16 km göngað BSÍ sem yrðu að 40 metra dýpi. Ef endastöðin yrði Smáralind eða Kringlan styttast þau göng að minnsta kosti um á annan kílómetra.
Runólfur Ágústsson, stjórnarmaður í Fluglestinni þróunarfélagi ehf. segir að kostnaðurinn geti hlaupið á um 140 milljörðum króna og að hann hafi alltaf verið þeirrar skoðunar að það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær lest til Keflavíkurflugvallar verði að veruleika.
Verkefnið hefur legið í dvala í nokkur ár en það skýrðist af því að Hafnfirðingar vildu ekki skrifa undir viljayfirlýsingu um verkefnið, ólíkt öðrum sveitarfélögum sem koma að því.