fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Sakfelldur fyrir að slá barnsmóður sína í andlitið – Hélt því fram að hún hefði áður logið til um ofbeldi og væri að reyna að ná yfirhöndinni í forsjármáli

Ritstjórn DV
Mánudaginn 27. mars 2023 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karlmaður hefur verið dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ráðist á fyrrverandi sambýliskonu sína og barnsmóður. Dómurinn var kveðinn upp þann 16. mars í Héraðsdómi Norðurlands eystra.

Nágranninn hringdi á lögreglu

Maðurinn var kærður fyrir tvö atvik sem áttu sér stað sama daginn. Annars vegar var hann sakaður um að hafa slegið barnsmóður sína í andlitið þar sem þau voru stödd í bifreið sem barnsmóðirin var að aka, og hins vegar fyrir að hafa síðar sama dag ráðist á barnsmóður sína á heimili þeirra á Akureyri og þá tekið í hendi hennar, snúið hendina aftur fyrir bak og hrint henni þannig að hún féll í gólfið og lenti þar á hnjám og hægri olnboga.

Eins var manninum gert að sök að hafa brotið gegn 3 mánaða dóttur sinni sem hafi verið viðstödd bæði tilvikin. Meint brot áttu sér stað í febrúar árið 2020. Barnsmóðirin fór fram á 3,5 milljónir í miskabætur.

Það var nágranni parsins sem hafði samband við lögreglu. Hún hafi heyrt þau rífast og síðan þungan dynk og því farið upp og bankað til að athuga stöðuna. Þá hafi barnsmóðirin komið til dyra og óskað eftir því að haft yrði samband við lögreglu.

Þegar lögregla kom var barnsmóðirin með sjáanlega áverka á efri vör og var bólgin. Hún hafi skýrt svo frá að maðurinn hefði „lamið hana í andlitið þegar hún var að aka bifreið þeirra“ fyrr um daginn og síðan hefði hann. „misst það“ þegar hún fór að taka saman hluti fyrir sig og dóttur hennar.

Vildi meina að barnsmóðirin hefði áður logið til um ofbeldi

Maðurinn neitaði sök. Hann sagði að samband hans og barnsmóðurinnar hafi verið erfitt eftir að dóttir þeirra fæddist. Þennan umrædda dag hafi þau farið að rífast í bílnum og barnsmóðir hans þá slegið hann ítrekað „eins og þegar kettir slást“ og hreytt í hann fúkyrðum. Síðan þegar þú hafi komið heim hafi barnsmóðir hans tekið æðiskast þegar hún sá að hann hafði keypt bjór og þá hafi hún ausið yfir hann fúkyrðum. Þegar hann hafi hjálpað henni að taka til föt á barnið hafi barnsmóðirin stokkið á hann og reynt að stöðva hann. Hún hafi svo hent sér á gólfið og sparkað í það með hælunum og látið öllum illum látum. Skömmu síðar hafi nágranninn bankað og hafi maðurinn heyrt að barnsmóðir hans óskaði eftir að hringt yrði á lögreglu. Hann hafi þá ákveðið að forða sér enda hafi hann slæma reynslu af lögreglunni.

Vildi maðurinn meina að barnsmóðir hans hefði áður ranglega sakað hann um ofbeldi og vísaði hann, máli sínu til stuðnings, til samskipta af samfélagsmiðlum sem lágu fyrir í málinu þar sem barnsmóðir hans gekkst við því að hafa ranglega sakað hann um ofbeldi árið 2018.

Barnsmóðirin sagði að á þeim tíma hafi hún verið að reyna að halda í manninn og því sagt hvað sem er í þeim tilgangi.

Taldi dómari að möguleikinn á að barnsmóðirin hefði áður sagt ósatt um ofbeldi hefði ekki þýðingu við úrlausn á þessum máli.

Í málinu báru vitni teymisstjóri í Bjarmahlíð og sálfræðingur sem vitnuðu til um slæma líðan barnsmóðurinnar eftir árásina. Hún hafi verið hrædd um sjálfa sig og barnið og upplifað mikla vanlíðan. Árásin hefði haft langvarandi áhrif á hana.

Eins bar vitni sálfræðingur sem maðurinn hafði gengið til og sá vitnaði um að maðurinn hefði sótt 65 viðtöl á tæpu ári og hafi verið að vinna úr erfiðri reynslu í tengslum við slit sambúðar og tálmun barnsmóður. Upplifði maðurinn að hann væri hafður fyrir röngum sökum.

Fram kom í málinu að barnsmóðirin hefur einnig kært manninn fyrir umsáturseinelti og hefur hún í tvígang farið fram á nálgunarbann. Fyrir dómi framvísaði maðurinn upptöku af símtali þar sem hann sagði barnsmóður sína hafa viðurkennt að hún hafi lagt fram kröfu um nálgunarbann til að styðja við mál sitt í forsjármáli þeirra.

Dómari leit til breyttra aðstæðna mannsins

Dómari mat það svo að framburður barnsmóður væri trúverðugur. Óhjákvæmilegt væri að líta til þess að maðurinn og barnsmóðir hans hefðu deilt um forsjá og lögheimili dóttur þeirra, en sá ágreiningur hafi þó ekki verið risinn þegar þau atvik, sem ákært var fyrir, áttu sér stað. Maðurinn hafði lagt fram mat sem fjölskipaður héraðsdómur í forsjármálinu gerði á trúverðugleika framburðar barnsmóðurinnar. Dómari taldi að þau gögn hefðu ekki þýðingu hér. Eins hefði opinber tjáning barnsmóðurinnar um ofbeldið ekki áhrif á trúverðugleika hennar.

Dómari taldi sannað að maðurinn hefði slegið barnsmóður sína í bílnum. Yrði því sakfelld fyrir þann ákærulið, eða fyrir ákvæði hegningarlaga um líkamsárás.

Varðandi seinna atvikið taldi dómari að verknaðarlýsing í ákæru samræmdist hvorki því hvernig maðurinn lýsti atvikum né heldur hvernig barnsmóðirin lýsti þeim. Ekki væri hægt að sakfella fyrir aðra háttsemi en í ákæru greini. Var hann því sýknaður af þeim ákærulið.

Varðandi brot á barnaverndarlögum leit dómari til þess að í bílnum hafi barnið verið í bakvísandi barnabílstól og mögulega sofandi. Ósannað væri að barnið hefði orðið vart við ofbeldið og var maðurinn því sýknaður af þeirri ásökun að hafa sýnt barninu ruddalega og vanvirðandi háttsemi.

Fram kom að maðurinn hefði áður hlotið dóma fyrir ofbeldi og höfðu þau ítrekunaráhrif. Dómari taldi hæfilega refsingu vera fangelsi í þrjá mánuði sem yrði skilorðsbundið til tveggja ára. Rökstuddi dómari þá ákvörðun með vísan til þess hvað rannsókn málsins hafi tekið langan tíma og til breyttra aðstæðna hjá manninum í dag en hann fer nú með lögheimili barns síns og sameiginlega forsjá.

Barnsmóður sinni þarf hann að greiða 350 þúsund krónur í miskabætur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigur hjá Harvey Weinstein: Dómi gegn honum í New York snúið við

Sigur hjá Harvey Weinstein: Dómi gegn honum í New York snúið við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“