Bilun í hreinsibúnaði bensínstöðvar Costco olli mengunarslysi á aðventunni í fyrra. Áætlað er að rúmlega 110 þúsund lítrar af dísilolíu hafi farið í gegnum fráveitukerfi Hafnarfjarðar og endað úti í sjó. Fréttablaðið greinir frá.
Margir íbúar kvörtuðu undan ólykt og sumir fundu til ógleði og fyrir höfuðverk. Í minnisblaði er ályktað að áhrifin á lífríkið séu sennilega ekki mikil, en sýni verða tekin af sjávarbotninum til greiningar.
„Þetta eru gríðarlega háar tölur og þetta er gríðarlega alvarlegt mengunarslys. Auðvitað vonaði maður að þetta yrði ekki svona mikið, en mér fannst eins og þetta yrði líklegast há tala,“ segir Hildur Rós Guðbjargardóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar.
„Mér myndi finnast óábyrgt að segja að þetta hafi haft lítil áhrif, án þess að það væru niðurstöður úr rannsókn til staðar.“
Nánar má lesa um málið í Fréttablaðinu.